Stytting vinnuviku hjá Kópavogsbæ

Kópavogsbær.
Kópavogsbær.

Vinna við útfærslu og undirbúning styttingar vinnuvikunnar hjá Kópavogsbæ var í samræmi við leiðbeiningar sem kynntar eru á heimasíðunni betrivinnutimi.is og í nánu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og önnur sveitarfélög.  

Settar voru á stofn vinnutímanefndir fyrir stofnanir Kópavogsbæjar sem samanstóðu af fulltrúum stjórnenda og starfsmanna og áttu öll stéttarfélög sinn fulltrúa í hverri nefnd. Farið var yfir tækifæri til vinnutímastyttingar á hverjum vinnustað fyrir sig. Starfsfólk og stjórnendur greiddu atkvæði um tillögur vinnutímastyttingar og þurfti a.m.k. helmingur starfsmanna að taka þátt. Þá þurfti meirihluti að samþykkja tillöguna eða meirihluti þeirra starfsmanna sem tillagan fjallar um. Sú tillaga sem hlaut samþykki meirihluta starfsmanna er sú sem varð ofaná og tók gildi þann 1. janúar 2021 eins og kveðið er á um í kjarasamningi.

Stytting vinnuvikunnar er umbótaverkefni sem felur í sér jákvæðar breytingar á vinnuumhverfi starfsmanna. Samkomulög um styttingu vinnuviku eru því í gildi í þrjá til sex mánuði og verða endurskoðuð á tímabilinu til að ná fram bestu lausnum í samræmi við reynslu af útfærslu styttingar. Ljóst var frá upphafi að vinnutímastyttingin yrði framkvæmd á mismunandi hátt á vinnustöðunum allt eftir því hvað hentaði starfseminni og starfsfólkinu. Á sumum vinnustöðum var stytting þegar komin til framkvæmda að hluta eða öllu leyti.

Eflingarstarfsmenn eru dýrmætur hópur starfsmanna Kópavogsbæjar sem starfa innan menntakerfis, velferðarþjónustu og stjórnsýslu bæjarins.