Sumarbræðingur í Kópavogi

Margrét Eir
Margrét Eir

Sumarið er mætt í Menningarhúsin í Kópavogi en fimmtudaginn 11. Júní kl. 17.00 verða fyrstu tónleikarnir í röðinni Sumarjazz í Salnum. Söngkonan Margrét Eir mun ríða á vaðið og flytja lög úr öllu áttum í léttri jazzsveiflu, meðal annars úr þekktum söngleikjum í bland við hin ýmsu og óvæntu popplög. Með henni spila þeir Jón Rafnsson á bassa og Karl Olgeirsson á píanó.

„Þetta er annað árið í röð sem Salurinn býður upp á Sumarjazz í Salnum en þetta er í fyrsta skiptið sem Menningarhúsin bjóða upp á Sumarbræðing í Kópavogi“, segir Íris María Stefánsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Menningarhúsanna „Sumarbræðingur í Kópavogi er yfirskriftin á þeim fimmtudögum þar sem boðið er upp á Sumarjazz í Salnum og langan opnunartíma í Gerðarsafni og Pure Deli. Í kjölfar allra Sumarjazz tónleikanna í Salnum í sumar verður opið í Gerðarsafni og Pure Deli til kl. 21. Gestir geta því kíkt ókeypis á sýningar Gerðarsafns eftir að hafa notið þess að hlusta á Margréti Eir án endurgjalds og fengið sér svo gómsætan snæðing á Pure Deli.“

 Næsti Sumarbræðingur í Kópavogi verður svo 25. júní þegar Sumarjazz í Salnum býður upp á Tríó Kristjönu Stefáns. Kristjana Stefánsdóttir, Ómar Guðjónsson og Þorgrímur Jónsson mæta þá og leika sín uppáhalds lög og standarda í eigin útsentningum, allt frá Bítlunum til Billy Strayhorn.