Takmarkanir á umferð 24. ágúst

Kortið sýnir takmarkanir á umferð vegna tónleika Justin Timberlake í Kórnum.
Kortið sýnir takmarkanir á umferð vegna tónleika Justin Timberlake í Kórnum.

Umferð í efri byggðum Kópavogs verður takmörkuð frá klukkan 16.00 til miðnættis þann 24. ágúst vegna tónleika Justin Timberlake í Kórnum. Takmarkanir á umferð um hverfin austan Reykjanesbrautar eru gerðar með það í huga að íbúar í hverfinu verði fyrir sem minnstum óþægindum á meðan á tónleikunum stendur og til að tryggja að ekki verði umferðaöngþveiti í kringum Kórinn.

Þá er með takmörkunum á umferð verið að tryggja að  lögregla, slökkvilið og sjúkralið komist leiðar sinnar innan hverfanna ef vá ber að höndum.

Húsið opnar klukkan 18.00, tónleikarnir hefjast klukkan 19.30 og er búist við að þeim ljúki milli 22.30 og 23.00 um kvöldið. Búast má við mikilli umferð vegna tónleikanna um það leyti er húsið opnar og þangað til þeir hefjast og svo strax að þeim loknum.

Íbúar fá send íbúakort (bílapassa) heim til sín í næstu viku sem gera mun þeim kleift að komast óhindrað leiðar sinnar meðan umferð er takmörkuð. Þessi passi þarf að fara í framrúðu eða á mælaborð bifreiðar, þannig að hann sé sýnilegur gæslumönnum og þeim sem stjórna umferðinni. Aftan á bílapassanum verða upplýsingar og útskýringar á lokunum.

Mælst er til þess við tónleikagesti að þeir leggi bílum sínum við Smáralind eða Urðarhvarf, en þaðan munu verða tíðar strætisvagnaferðir. Miði á tónleikana gildir einnig í strætó frá klukkan 14.00 alls staðar að á höfuðborgarsvæðinu á tónleikastað. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvaða götur eru lokaðar og hvar bílastæði eru fyrir tónleikagesti.

Auk stæða við Smáralind verður bílastæði við Urðarhvarf fyrir tónleikagesti sem geta tekið strætó þaðan í Kórinn. Þá verða bílastæði við reiðskemmu Spretts í grennd við Kórinn fyrir þá sem eru með fjóra eða fleiri tónleikagesti í bílnum og létt ökutæki á borð við vespur og mótorhjól. Strætisvagnaferðirnar frá Smáralind fara frá Debenhams og þangað geta þeir sem vilja leggja við Fífuna einnig gengið og tekið vagn í Kórinn.