Tekur þátt í Útsvari í 9. sinn

Gunnar Reynir Valþórsson, Rannveig Jónsdóttir og Skúli Þór Jónasson skipa Útsvarslið Kópavogs 2015.
Gunnar Reynir Valþórsson, Rannveig Jónsdóttir og Skúli Þór Jónasson skipa Útsvarslið Kópavogs 2015.

Kópavogur mætir Langanesbyggð í Útsvari á morgun, föstudaginn 30. október. Lið Kópavogs skipa að þessu sinni þau Gunnar Reynir Valþórsson, Rannveig Jónsdóttir og Skúli Þór Jónasson. Kópavogur hefur tekið þátt í Útsvari frá upphafi, en þátturinn hóf göngu sína árið 2007. Lið bæjarins vann keppnina fyrstu tvö árin sem hún fór fram.

Nánar um keppendur Kópavogsbæjar:

​Gunnar Reynir Valþórsson er fertugur fréttamaður hjá 365, menntaður í stjórnmálafræði. Á tvö börn, stelpu og strák, níu og fimmtán ára. Spilar á gítar í þungarokkshljómsveitinni Strigaskór nr. 42 annað slagið. Ólst upp í austurbænum, fyrst í Furugrundinni og síðan í Álfatúni og gekk í Snælandsskóla. Eftir grunnskóla lá leiðin svo auðvitað í MK.

Rannveig Jónsdóttir er bókmenntafræðingur og kennari, kennir íslensku í Kársnesskóla. Rannveig er fædd og uppalin í Þorlákshöfn en það var ástin sem dró hana í Kópavoginn fyrir 11 árum síðan. „Hér fann ég þúfuna mína og hér vil ég vera. Maðurinn minn er innfæddur Kópavogsbúi, við eigum þrjár dætur og köttinn Þoku.“

Skúli Þór Jónasson er 24 ára háskólanemi. Hann kemur úr úr Snælandshverfinu í Kópavogi og hefur búið þar alla tíð. Keppti tvisvar í Gettu Betur í sjónvarpinu fyrir MH.  Lauk BS í heilbrigðisverkfræði frá HR 2014 og hóf þar BS nám í tölvunarfræði síðastliðið haust.  Hann er einnig sellóleikari til margra ára og hefur lokið framhaldsprófi í sellóleik frá Tónlistarskóla Kópavogs.