Tendrað á jólatréi Kópavogsbæjar

Aðventuhátíð Kópavogs 2020 var ekki með hefðbundnu sniði í ljósi aðstæðna.
Aðventuhátíð Kópavogs 2020 var ekki með hefðbundnu sniði í ljósi aðstæðna.

Tendrað var á jólatré Kópavogsbæjar laugardaginn 28. nóvember í mildu og fallegu vetrarveðri. Jólatréið er að þessu sinni úr Guðmundarlundi í Kópavogi. 

Nokkrir nemendur úr Kársnesskóla sungu þrjú jólalög undir stjórn Álfheiðar Björgvinsdóttur og Margrét Friðriksdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs, tendraði á trénu, sem stendur við Menningarhúsin í Kópavogi.  Í lok söngsins óskaði kórinn öllum nær og fjær gleðilegra jóla.

Undanfarin ár hefur verið haldin vegleg aðventuhátíð í Kópavogi, daginn fyrir fyrsta sunnudag í aðventu, en í ljósi aðstæðna varð ekki af slíkri hátíð í ár.

Menningarhúsin í Kópavogi munu þess í stað bjóða upp á viðburði á netinu í desember, þar á meðal Aðventudagatal þar sem leynast munu jólasögur, hátíðartónar og aðventugóðgæti af ýmsu tagi. 

Með tendrun jólatrésins í dag hefur verið kveikt á öllum jólaseríum Kópavogsbæjar en starfsmenn bæjarins hófust handa við að kveikja á jólaljósunum í októberlok. Ljósin munu ljóma út jólahátíðina og lýsa þannig upp svartasta skammdegið.