Þakka stuðning við stærðfræðikeppni

Rannveig Ásgeirsdóttir, Anna Kristjánsdóttir og Gunnar I. Birgisson við afhendingu viðurkenningarsk…
Rannveig Ásgeirsdóttir, Anna Kristjánsdóttir og Gunnar I. Birgisson við afhendingu viðurkenningarskjala BEST, bekkirnir keppa í stærðfræði.

Kópavogsbær hefur fengið sérstaka viðurkenningu frá stærðfræðikeppninni BEST, bekkirnir keppa í stærðfræði, fyrir auðsýndan stuðning. Anna Kristjánsdóttir prófessor emirítus og forvígismaður keppninnar á Íslandi afhenti bænum viðurkenningarskjöl og heiðraði um leið tvo bæjarfulltrúa fyrir sitt framlag.

Það voru þau Rannveig Ásgeirsdóttir fráfarandi formaður skólanefndar og Gunnar I. Birgisson fyrrum bæjarstjóri Kópavogsbæjar sem Anna veitti sérstaka viðurkenningu fyrir sitt  framlag í þágu keppninnar  sem haldin var í Kópavogi 2008 og 2012.

„BEST hefur nú útbúið sérstök þakkarskjöl fyrir bæjarfélög og sveitarfélög sem bjóða keppninni heim. Þótt nokkuð sé um liðið frá heimboðum til Kópavogs, viljum við afhenda þangað slík skjöl en einnig einstaklingsskjöl til Gunnars Birgissonar og Rannveigar Ásgeirsdóttur sem beittu sér sérstaklega fyrir því að erindi okkar var svo vel tekið og stutt glæsilega við verkefnið. Jafnframt biðjum við fyrir þakklæti til allra sem komu að móttökum í hvort skipti,“ sagði Anna Kristjánsdóttir við tækifærið.

Stærðifræðikeppnin BEST, bekkirnir keppa í stærðfræði, hefur verið haldin frá árinu 2001, fyrst undir heitinu KappAbel eins og hliðstæð keppni í Noregi. Í keppninni keppa bekkir í stærðfræðiþrautum og gera rannsóknarverkefni þar sem könnuð eru tengsl stærðfræði við önnur svið. Þar hafa verið tekin fyrir ýmis þemu, til að mynda íþróttir, byggingar, tónlist, umhverfi, dýr og nú síðast lýðfræði. Vegleg lokahátíð er haldin á hverju vori og veittar viðurkenningar. Fulltrúar bekkjar sem sigrar þar taka þátt í norrænni lokakeppni.

Skólar í Kópavogi komu snemma til leiks í þessari keppni og hefur þátttaka oftast verið mjög mikil. Þá hafa þeir oft góðum árangri. Digranesskóli átti til dæmis besta norræna bekkjarverkefnið vorið 2007.

"Eins og gefur að skilja er BEST mjög kostnaðarsamt verkefni þótt öll vinna við það sé gefin. Því var kannað vegna vorsins 2008 hvort Kópavogsbær myndi vilja bjóða keppninni heim. Gunnar Birgisson bæjarstjóri tók því afar vel og var tekið á móti keppninni í húsakynnum Kópavogs á rausnarlegan og hlýlegan hátt. Vorið 2012 var afráðið að leita aftur liðsinnis Kópavogs og var leitað til Rannveigar Ásgeirsdóttur formanns skólanefndar og nú formanns bæjarráðs. Hún tók erindinu mjög vel, þekkti vel til keppninnar og beitti sér af alhug fyrir því að Kópavogur tók aftur á rausnarlegan og hlýlegan hátt á móti BEST,“ sagði Anna Kristjánsdóttir við afhendingu viðurkenninganna.

Rannveig Ásgeirsdóttir, Anna Kristjánsdóttir, Þórður Guðmundsson og Anna Birna Snæbjörnsdóttir ræða málin við afhendingu viðurkenningu BEST, bekkirnir keppa í stærðfræði.