Þrektæki í Kópavogsdal

Þrektæki í Kópavogsdal eru hugmynd frá íbúum Kópavogs sem valin voru áfram í verkefninu Okkar Kópav…
Þrektæki í Kópavogsdal eru hugmynd frá íbúum Kópavogs sem valin voru áfram í verkefninu Okkar Kópavogur.

Nýverið voru sett upp þrektæki í Kópavogsdal. Þrektækin sem eru við Kópavogstjörn voru valin áfram af íbúum í kosningum í verkefninu Okkar Kópavogur. Í þeim má gera fjölbreyttar æfingar sem reyna á þol og styrk.

"Það er mjög ánægjulegt að sjá hugmyndir íbúa verða að veruleika. Þrektækin eru góð viðbót við þá frábæru aðstöðu sem er að finna hér í dalnum, til hreyfingar og heilsubótar. Þrektækin falla líka afar vel að markmiðum nýsamþykktrar lýðheilsustefnu þannig að við sláum tvær flugur í einu höggi hér," segir Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs.

Nú er 15 verkefnum af 34 lokið sem íbúar völdu áfram í Okkar Kópavogi. Auk þrektækjanna má nefna aparólu á Rútstúni, hlaupa- og göngukort í Salahverfi og bætta aðstöðu við Kópavogstjörn. Önnur verkefni eru í framkvæmd, meðal þeirra verkefna sem eru í bígerð eru þrektæki í Fossvogsdal og vatnspóstar í Kópavogsdal.

Verkefninu Okkar Kópavogur var hleypt af stokkunum síðastliðið vor. Alls bárust um 400 hugmyndir en í kosningum sl. haust stóð valið á milli 100 hugmynda, 20 í hverju hverfi. 12% íbúa tóku þátt sem er met í íbúalýðræðisverkefni. Alls var úthlutað 200 milljónum til verkefnanna og fengu hverfin á bilinu 23 til  64 milljónir, úthlutað eftir íbúafjölda.

Kallað verður eftir nýjum hugmyndum frá bæjarbúum í haust og er stefnt að hugmyndaöflun í byrjun september.