Hafsteinn Karlsson bæjarfulltrúi ásamt þeim Þórunni Björg Guðmundsdóttur, Atla Þór Erlendssyni og Eydísi Sylvíu Einarsdóttur.
Þrír nemendur sem brautskráðust frá Menntaskólanum í Kópavogi fyrir jól fengu styrk úr viðurkenningarsjóði MK fyrir góðan námsárangur. Hafsteinn Karlsson bæjarfulltrúi veitti viðurkenningarnar þar sem sjóðurinn var stofnaður af bæjarstjórn Kópavogs árið 1993 í tilefni af 20 ára afmæli skólans.
Nemendurnir eru:
- Þórunn Björg Guðmundsdóttir sem hlaut hundrað þúsund króna styrk fyrir einstakan námsárangur og dugnað við nám á stúdentsprófi frá MK, haustið 2011.
- Eydís Sylvía Einarsdóttir sem hlaut fimmtíu þúsund króna styrk fyrir góðan námsárangur og miklar framfarir í námi á stúdentsprófi frá MK, haustið 2011.
- Atli Þór Erlendsson, nýsveinn í matreiðslu, sem hlaut hundrað þúsund króna styrk fyrir góðan námsárangur og dugnað við nám á lokaprófi frá Hótel- og matvælaskólanum í Menntaskólanum í Kópavogi.
Kópavogsbær óskar nemendunum til hamingju með árangurinn og velfarnaðar í þeim verkefnum og störfum sem framundan eru.