- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Námskeið fyrir börn og fjölskyldur
- Heimili
- Fólk með fötlun
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt að vísa áfram til samþykktar bæjarstjórnar drögum að viljayfirlýsingu við Aflvaka Þróunarfélag um uppbyggingu 5.000 íbúða lífsgæðakjarna á jörðinni Gunnarshólma sem liggur norðan við Suðurlandsveg, skammt austan við Hólmsheiði og Rauðavatn. Um er að ræða jörð sem er í eigu Aflvaka Þróunarfélags og innan bæjarmarka Kópavogs, en bærinn á einnig sjálfur mikið land á umræddu svæði. Svæðið er utan núverandi vaxtarmarka höfuðborgarsvæðisins en farið verður í viðræður við nágrannasveitarfélögin um breytingu á þeim. Viljayfirlýsingin verður tekin fyrir á næsta fundi bæjarstjórnar Kópavogs, 13.febrúar næstkomandi.
Um stórhuga áform er að ræða sem fela í sér uppbyggingu á nýju íbúðahverfi með búsetuíbúðaformi, sem sérstaklega verður sniðið að þörfum fólks á þriðja æviskeiðinu (60 ára og eldri). Þá er einnig gert ráð fyrir allt að 1.200 hjúkrunarrýmum á svæðinu þegar það er fullbyggt en það jafngildir um helmingi þeirra hjúkrunarrýma sem fyrirséð er að muni vanta á höfuðborgarsvæðinu á næstu 15 árum. Aukinheldur er fyrirhugað að reisa heilsukjarna þar sem starfrækt verður heilsuhús og nýsköpunarmiðstöð með áherslu á heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Þannig verður leitast við að skapa kjöraðstæður fyrir heilbrigðara líf, félagsskap, útiveru og afþreyingu.
„Gangi áformin eftir er Kópavogsbær ekki aðeins að stíga mikilvægt skref í að leysa stórar áskoranir er snúa að húsnæðisvanda höfuðborgarsvæðisins og öldrun þjóðar heldur er hér um að ræða nýjan og spennandi valkost sem ekki hefur verið í boði áður. Eldri bæjarbúar eru ört vaxandi og fjölbreyttur hópur og mikilvægt að bjóða uppá fleiri búsetumöguleika til að mæta betur þörfum þeirra. Hér eru metnaðarfull áform um uppbyggingu á lífsgæðakjarna sem ríma vel við stefnu Kópavogsbæjar,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri.
Fjöldi 80 ára og eldri mun tvöfaldast á næstu 15 árum
Stórátak þarf í uppbyggingu húsnæðis og þjónustu fyrir fólk á efri árum. Áætlað er að á næstu 15 árum muni Íslendingum yfir 65 ára aldri fjölga um 70%, úr 50 þúsund í um 85 þúsund. Þá mun fjöldi 80 ára og eldri tvöfaldast á sama tímabili. Þessi mikla fjölgun fólks á þriðja- og fjórða æviskeiðinu felur í sér miklar áskoranir í heilbrigðis- og öldrunarmálum. Mæta þarf auknum væntingum þessa hóps, meðal annars um sjálfstæða búsetu og fjölbreytta þjónustu. Þá er ljóst að vegna fólksfjölgunar er yfirvofandi verulegur skortur á íbúðahúsnæði. Þetta verkefni er stór þáttur í úrbótum þar á.
Fyrirhugað uppbyggingarsvæði fellur sem áður segir utan núverandi vaxtarmarka höfuðborgarsvæðisins og kallar á breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Grundvallarforsenda þess að ráðist verði í uppbyggingu er að vatnsvernd sé í engu ógnað.
Heilbrigðis- og öldrunarþjónustan sem byggð verður upp á svæðinu mun þjóna höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu.
Áætlað er að uppbygging á svæðinu muni taka um átta ár eftir að viðeigandi leyfi hafa fengist og að fyrsta áfanga verði lokið á tveimur til þremur árum.
Mikil reynsla af uppbyggingu stórhuga þróunarverkefna
Teymið á bakvið þróunarverkefnið er með mikla reynslu af stórum nýsköpunarverkefnum, meðal annars í heilbrigðistækni. Framkvæmdastjóri Aflvaka Þróunarfélags er Sigurður Stefánsson fyrrum fjármálastjóri CCP og í stjórn félagsins eru þeir Birgir Már Ragnarsson og Andri Sveinsson eigendur fjárfestingafélagsins Omega ehf., sem átti yfir 10% hlut í Kerecis sem selt var fyrir 180 milljarða á dögunum. Andri Sveinsson var stjórnarformaður Kerecis og Birgir Már Ragnarsson er núverandi stjórnarformaður Sidekick Health. Þeir eru jafnframt eigendur Grósku hugmyndahúss. Í stjórn Aflvaka Þróunarfélags situr einnig Guðmundur J. Oddsson sem jafnframt er stjórnarmaður í Sidekick Health.
Nánari upplýsinga á vef Aflvaka Þróunarfélags.