ÞYKJÓ og Midpunkt fengu hæstu styrkina

Á myndinni eru frá vinstri: Erla Ólafsdóttir, Ragnheiður Sigurðardóttir Bjarnarson, Ninna Þórarinsd…
Á myndinni eru frá vinstri: Erla Ólafsdóttir, Ragnheiður Sigurðardóttir Bjarnarson, Ninna Þórarinsdóttir, Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir, Joanna Pawlowska, Sigríður Sunna Reynisdóttir og Karen Elísabet Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs Kópavogs. Ragnheiður og Joanna eru aðstandendur Midpunkt en aðrar eru aðstandendur ÞYKJÓ.

Hönnunarverkefnið ÞYKJÓ og listamannarýmið Midpunkt hlutu hæsta framlag við úthlutun lista- og menningarráðs Kópavogs úr lista- og menningarsjóði 2021,  fjórar milljónir hvort. Tilkynnt var um úthlutanir við athöfn sem fram fór í Gerðarsafni föstudaginn 15.janúar 2021. Alls bárust 59 umsóknir og hlutu 13 verkefni framgang.

Hönnuðir ÞYKJÓ verða staðarlistamenn í Kópavogi árið 2021 og munu á þeim tíma vinna að þverfaglegu rannsóknar- og hönnunarstarfi fyrir börn og fjölskyldur þeirra í samvinnu við Gerðarsafn, Salinn, Náttúrufræðistofu Kópavogs og Bókasafn Kópavogs. ÞYKJÓ sérhæfir sig í búningum, innsetningum og listasmiðjum fyrir börn en innan vébanda hópsins eru barnamenningarhönnuður, textílhönnuður, búninga- og leikmyndahönnuður, arkitekt og klæðskerameistari.

„Hönnun ÞYKJÓ sprettur upp úr þverfaglegu samtali og hönnuðir í teyminu þrífast á því að grúska og gera tilraunir. Það er því mikill fengur fyrir okkur að komast í starfsumhverfi menningarstofnana í Kópavogi sem snýr einmitt að því að byggja brýr á milli ólíkra listgreina, fræða og vísinda. Fyrsta lína ÞYKJÓ, Ofurhetjur jarðar, er óður til töfra dýraríkisins annars vegar og leikgleði, ímyndunarafls og sköpunarkrafts barna hins vegar, sem ákall um að hvort tveggja þurfi að vernda og varðveita“ segir Sigríður Sunna Reynisdóttir, leikmynda- og búningahönnuður í hönnunarverkefninu ÞYKJÓ.  

Midpunkt er metnaðarfullt og framsækið listamannarými við Hamraborg, sem starfrækt hefur verið með fjölbreyttri og áhugaverðri sýninga- og viðburðadagskrá í rúmlega tvö ár af þeim Ragnheiði Sigurðardóttur Bjarnarðson og Snæbirni Brynjarssyni og skipað sér algera sérstöðu í innlendu listalífi. 

„Midpunkt er mikilvægur vettvangur fyrir samtímalist af ýmsum toga og hefur það að markmiði að kynna nýjar, spennandi raddir, erlenda listamenn í bland við innlenda, upprennandi listamenn. Midpunkt hefur verið bakhjarl fyrir tvær menningarhátíðir í Hamraborg, og haldið tónlistar-, sviðslista- og bókmennta-viðburði, auk myndlistasýninga á eins mánaðar fresti síðan staðurinn var opnaður í október 2018,“ segir Snæbjörn Brynjarsson hjá Midpunkt. 

Aðrir sem fengu úthlutaðúr Lista- og menningarsjóði Kópavogsvoru eftirfarandi: 

1.500.000 kr. 
- Snorri Rafn Hallsson, Aðalbjörg Árnadóttir, Elísabet Jónsdóttir, Rannveig Bjarnadóttir fyrir Flanerí Kóp: Hljóðvapp um sögu og samtíma Kópavogs. 

600.000 kr. 
- Sólfinna fyrir Jazztónleikaröð Sunnu Gunnlaugsdóttur í Salnum. 
- Aude Maina Anne Busson fyrir Manndýr, þátttökusviðslistaverk fyrir börn. 

330.000 kr.  
- Stílvopnið-valdefling og sk ehf fyrir Hetjuferðina í Bókasafni Kópavogs, ritlistasmiðjur fyrir ungmenni og eldri borgara.  

300.000 kr.  
- Ásgeir Jón Ásgeirsson fyrir þjóðlagasextett. 
- Karlakór Kópavogs fyrir Kópavogstóna, sönglög með rætur í Kópavogi, útsett fyrir karlakór. 
- Kvennakór Kópavogs fyrir vor- og jólatónleika. 
- Samkór Kópavogs.

270.000 kr.
- Elísabet Waage og Laufey Sigurðardóttir fyrir fiðlu- og hörputónleika.

250.000 kr.
- Þórður Steingrímur Guðmundsson fyrir myndgreiningafundi á Héraðsskjalasafni Kópavogs.
- Dansgarðurinn fyrir tvær sýningar á TheMall eftir Sögu Sigurðardóttur í flutningi Forward í Smáralindinni.

150.000 kr.
- Wioleta Anna Ujazdowska fyrir blómaverk úr plasti unnið með grunnskólabörnum.

Að auki styrkir Lista- og menningarráð viðburðaraðir og hátíðir á vegum bæjarins svo sem viðburðaraðirnar Menning á miðvikudögum, Fjölskyldustundir á laugardögum, Vetrarhátíð og Safnanótt, Aðventuhátíð, Ljóðstaf Jóns úr Vör og fleira.