Tímarit Menningarhúsanna á öll heimili í Kópavogi

Tímarit Menningarhúsanna í Kópavogi 2020-21.
Tímarit Menningarhúsanna í Kópavogi 2020-21.

Tímarit Menningarhúsanna í Kópavogi kom út núna í fyrsta sinn 1. september 2020 og var því dreift á öll heimili í Kópavogi. Tímaritið fjallar um starfsemi húsanna og dagskrá vetrarins ásamt því að þar er að finna fjölda áhugaverðra viðtala við lista- og fræðifólk sem hefur starfað náið með Menningarhúsunum undanfarin ár. Tímaritið er hugsað sem enn eina leiðina fyrir húsin að koma menningu og listum áleiðis til bæjarbúa enda skiptir miklu máli að næra sálina og frjóvga hugann – ekki síst nú á tímum fjöldatakmarkana og fjarlægamarka.

Menningarhúsin í Kópavogi eru Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn, Héraðsskjalasafn Kópavogs, Náttúrufræðistofa Kópavogs og Salurinn. Tilgangur menningarstarfseminnar í Kópavogi er að auka lífsgæði íbúa á öllum aldri með fjölbreyttu menningar- og listalífi, fræðslu og miðlun. Menningarhúsin starfa því bæði sem sjálfstæðar ólíkar stofnanir en einnig sem heild í því skyni að efla samfélagið. Húsin sameinast um ýmiskonar dagskrá eins og Fjölskyldustundir á laugardögum, Menningu á miðvikudögum, Foreldramorgna á fimmtudögum, dagskrá fyrir skólahópa og margt fleira.

Tímarit Menningarhúsanna