Tónlist og fótbolti á fjölskyldustund

Fótboltaópera á Óperudögum í Kópavogi.
Fótboltaópera á Óperudögum í Kópavogi.
Laugardaginn 28. maí verður fjölskyldustund í Salnum sem er sérlega áhugaverð fyrir fjölskyldur sem elska tónlist…og fótbolta! Dagskráin hefst stundvíslega kl. 13 með frumflutningi á FótboltaÓperunni eftir Helga Rafn Ingvarsson.
Sex einsöngvarar, trommuleikari og félagar úr Skólakór Kársness flytja óperuna sem er 10 mínútur að lengd. Að flutningi loknum verður farinn leiðangur um baksvið Salarins þar sem hinn knái Jón Svavar Jósefsson mun leiða börnin um og segja frá undirbúningi söngvara áður en þeir stíga á svið. Jón Svavar mun gefa vel valin tóndæmi á sviði Salarins og í lok leiðangurs syngja með börnunum. Foreldrar geta því horft á börn sín stíga á svið í Salnum með einum besta baritónsöngvara landsins.
Að lokinni dagskrá í Salnum má svo bregða á leik og sparka bolta á útivistarsvæði Menningarhúsanna.
Dagana 4. og 5. júní klukkan 13.30 verða óperugöngur fyrir krakka, 12 ára og yngri en foreldrar eða aðrir fullorðnir fylgifiskar eru velkomnir með. Göngurnar hefjast fyrir framan Gerðarsafn og hópurinn verður leiddur á milli staða í hjarta Kópavogs. Búast má við að persónur úr óperubókmenntunum komi við sögu með ýmsum uppákomum en göngurnar er rúmlega klukkutíma langar. Ókeypis er á FótboltaÓperuna og í krakkagöngurnar en gott að skrá sig á netfangið operudagar(hjá)operudagar.is. Óperudagar í Kópavogi er ný hátíð í Kópavogi með fjölmörgum viðburðum fyrir alla aldurshópa. Nánar um dagskrá hátíðarinnar á: www.operudagar.is. Aðal bakhjarl hátíðar er Lista- og menningarráð Kópavogs.