Umhverfisviðurkenningar ársins 2013

Glaður hópur í Salnum í dag.
Glaður hópur í Salnum í dag.

Lindasmári 18 til 54 er gata ársins 2013 í Kópavogi en það var tilkynnt við hátíðlega athöfn í Salnum í dag. Íbúar götunnar fengu þar með viðurkenningu bæjarstjórnar Kópavogs fyrir að halda húsum sínum og lóðum snyrtilegum og götunni fallegri í áranna rás. Fleiri viðurkenningar voru veittar í gær.

Kópavogsbær veitir umhverfisviðurkenningar árlega og fengu íbúar einbýlishúss að Birkihvammi 7 í Kópavogi, hjónin Sigríður Bjarnadóttir og Guðmundur B. Kristmundsson, viðurkenningu umhverfis- og samgöngunefndar fyrir umhirðu húss og lóðar. Íbúar Huldubrautar 31, hjónin Lovísa Ólafsdóttir og Sævar Guðbergsson, fengu viðurkenningu fyrir endurgerð húsnæðis, en þau keyptu húsið árið 1991 og hafa smám saman gert það upp.

Að auki fengu skólarnir Kársnesskóli, Smáraskóli, Vatnsendaskóli og Menntaskólinn í Kópavogi viðurkenningar fyrir framlag sitt til umhverfismála. Skólarnir hafa með ýmsum hætti lagt mikla áherslu á umhverfismál, svo sem með fræðslu, flokkun sorps og snyrtilegu umhverfi.

Umhverfisviðurkenningar hafa verið veittar í bænum frá árinu 1964 og er markmiðið að hvetja íbúa, forsvarsmenn fyrirtækja og aðra til að halda bænum snyrtilegum og hreinum.

Margrét Björnsdóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, og Margrét Júlía Rafnsdóttir nefndarfulltrúi gróðursettu eftir athöfnina í Salnum skrautreyni við götu ársins og Ómar Stefánsson, varaformaður bæjarráðs, afhjúpaði skjöld þar sem fram kemur að Lindasmári sé gata ársins 2013.

Í tilefni dagsins var einnig afhjúpað fræðsluskilti um bæinn Fífuhvamm en hann stóð þar sem nú er Núpalind og leikskólinn Núpur hjá Lindaskóla. Fyrr á árinu voru sett upp fræðsluskilti við Kópavogstún og smábátahöfnina.

Myndir frá athöfninni má sjá á Facebook-síðu Kópavogsbæjar.