Umræða og fræðsla um einelti á vinnustað

Bæjarstjóri ásamt starfsmönnum Kópavogsbæjar
Bæjarstjóri ásamt starfsmönnum Kópavogsbæjar

Starfsmenn Kópavogsbæjar hlýddu í dag á erindi um einelti á vinnustöðum en með því er verið að fylgja eftir eineltisstefnu bæjarins sem samþykkt hefur verið í bæjarráði. Markmiðið er að uppræta einelti. Eineltisteymi bæjarins kynnti á sama tíma nýtt veggspjald sem ber yfirskriftina: Saman gerum við vinnustaðinn góðan.

Stefnt er að því að halda fleiri erindi og námskeið um einelti á næstu vikum en hjá Kópavogsbæ vinna um 2.700 starfsmenn. Rannsóknir sýna að hátt í 10% opinberra starfsmanna hafa upplifað einelti á sínum vinnustöðum.

Í eineltisstefnu bæjarins segir að Kópavogsbær hafi það að leiðarljós að vera góður vinnustaður og að starfsmönnum líði vel í vinnunni. Þar er einnig farið yfir skilgreininguna á einelti sem er „ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.“

Eineltisteymi Kópavogsbæjar er skipað fulltrúa frá starfsmannadeild, jafnréttisráðgjafa og forvarnarfulltrúa. Í teyminu eru: Harpa Hallsdóttir, Ása Arnfríður Kristjánsdóttir og Linda Udengaard. Hlutverk þeirra er að veita stjórnendum ráðgjöf þegar einelti eða vísbending um einelti kemur upp á vinnustað. Teyminu er heimilt að sækja sér utanaðkomandi ráðgjöf.

Hjá skólum bæjarins, leikskólum og grunnskólum, ríkja einnig eineltisstefnur. Hátt í fimm þúsund börn og unglingar úr Kópavogi gengu gegn einelti á degi eineltis í síðustu viku. Stefnt er að því að eineltisgangan verði árviss viðburður hér eftir.

Á meðfylgjandi mynd eru fulltrúarnir í eineltisteyminu ásamt bæjarstjóra.

 Eineltisstefna Kópavogsbæjar