Ungmenni funduðu með bæjarstjórn

Fulltrúar úr ungmennaráði, barnaþing og Bæjarstjórn Kópavogs.
Fulltrúar úr ungmennaráði, barnaþing og Bæjarstjórn Kópavogs.

Ungmennaráð Kópavogs og fulltrúar af barnaþingi í Kópavogi funduðu með Bæjarstjórn Kópavogs í vikunni. Á fundinum voru lagðar fram tillögur fulltrúa ungmennaráðs og barnaþings og voru bæjarfulltrúar til svara.

Meðal þess sem lagt var til er aukið fjármagn til félagsmiðstöðva, að spornað verði markvisst gegn matarsóun í skólum, að skyndihjálp verði kennd og fjármálfræðsla aukin.

Tillögurnar eru afrakstur fundahalda vetrarins. Ungmennaráð hélt ungmennaþing og eru tillögurnar upp úr því. Unglingar á aldrinum 16-25 sitja í Ungmennaráði.

Barnaþing var haldið í fyrsta sinn í mars. Börn í grunnskólum í Kópavogi sömdu tillögurnar en á Barnaþingi voru þær unnar frekar.

Í framhaldinu verða tillögurnar teknar til frekari skoðunar og framkvæmdar ef kostur er.

Tillögur barnaþings:

  • Auka þekkingu kennara á menntaskólum.
  • Fræða kennara um menntaskóla, þannig að þeir hafi þekkingu til að svara spurningum nemenda um skólana. Það er stór munur á grunnskóla og framhaldsskóla og því er gott að það sé búið að undirbúa okkur þannig að við getum staðið okkur vel. Til þess að ná árangri bæði fyrir nemendur og kennara þarf að hlúa að starfsfólki, nemendum og umhverfi.
  • Félagsmiðstöðvar – bæta aðstöðumun og auka fræðslu
  • Meira fjármagn frá Kópavogsbæ til að bæta aðstöðumun félagsmiðstöðva. Einnig að auka fjármagn til að hægt sé að auka opnun fyrir miðstig og auka möguleika á að fá ýmis konar fræðslu fyrir félagsmiðstöðvarnar (t.d. kynfræðslu, Samtökin 78, geðheilbrigðismál o.s. frv).
  • Markviss lífsleiknikennsla
  • Lífsleikni sem sér fag í öllum skólum á mið- og unglingastigi, ekki tekið fyrir sem hluti af samfélagsfræði. Má ekki vera val og mikilvægt að það sé séð til þess að lífsleikni detti ekki upp fyrir. Fræðsla sé ekki bara í formi fyrirlestra heldur hluti af verkefnum og kennslunni almennt, meiri umræða og verkefni en ekki bara fyrirlestrar þar sem m.a. er fjallað um rasisma, fordóma, ást, mörk og kynlíf. Allri fræðslu þarf að fylgja eftir og taka umræðu. Lífsleikni ætti að vera ein kennslustund (40-60mín) tvisvar sinnum í viku.
  • Kynfræðslan mætti byrja fyrr og þá með áherslu á aðra þætti kynfræðslunnar en samfarir, getnaðarvarnir og kynlíf. Meiri áhersla á eigin líkama, mörk og heilbrigð samskipti.
  • Gott væri að gefa þeim sem verða fyrir eða hafa orðið fyrir rasisma og öðrum fordómum tækifæri til að deila reynslu sinni. Þurfum að fá tækifæri til að heyra frá og kynnast fólki af ólíkum uppruna og í ólíkum minnihlutahópum. Það verður að vera skýrt hvert nemendur geta leitað ef farið er yfir mörk eða ef þeir upplifa fordóma.
  • Sundkennsla
  • Taka sundpróf í 8.bekk, ef þú nærð því þá er sund val í 9. og 10.bekk. Það þarf samt að vera annað hæfnipróf og upprifjun í 10.bekk til að sýna fram á að þú hafir viðhaldið hæfninnni. Ef viðkomandi nær ekki hæfniprófinu þarf hann að taka sund sem valgrein. Það þarf að vera kynlaus einstaklings klefi eða útiklefi í öllum sundlaugum og/eða lokaður klefi inni í kynjuðum klefum. Kynjaskipt í sund og kynsegin einstaklingar velja með hvaða hóp þeir fara. Það er áríðandi að það sé markviss skyldu fræðsla um kynsegin strax á miðstigi.
  • Fá fjármálafræðslu á mið- og unglingastig í alla grunnskóla í Kópavogi
  • Fá kynningu á því hvað felst í fjármálafræðslu í 7. bekk og í kjölfarið fasta tíma vikulega í 8., 9. og 10. bekk. Hugtök sem vert er að horfa á í kennslustundum um fjármál eru skattar, sparnaður, fjárfesting, lánataka, launaseðlar og stofnun bankareikninga. Fá kynningu frá starfsmönnum til dæmis í banka, hjá sýslumanni eða skattinum á unglingastigi. Fjármálafræðslu væri hægt að fella undir lífsleikni. Einnig væri að búa til rafrænt verkefni þar sem heimabanki væri settur upp, t.d. Etoro (app).
  • Fá starfsfræðslu á mið- og unglingastig í alla grunnskóla í Kópavogi
  • Fá kynningu á því hvað felst í starfsfræðslu í 7. bekk og í kjölfarið fasta tíma vikulega í 8., 9. og 10. bekk. Atriði sem vert væri að skoða í starfsfræðslu eru gerð ferilskráa, starfsumsóknir og starfsviðtöl. Einnig væri gott að fá betri kynningu á námsframboði framhaldskóla og hvaða fög eru kennd í viðkomandi námi. Starfsfræðslu væri hægt að fella undir lífsleikni.

Tillögur ungmennaráðs

  • Bæta aðstöðu í skólaumhverfinu
  • Auka fjármagn til að bæta aðstöðu búnaðar í grunnskólum Kópavogs. Horft sé til verkefnisins Okkar Kópavogur, að nemendur geta lagt fram hugmyndir og svo kosið um þann búnað sem nemendur vilja fá í sitt skólaumhverfi.
  • Íþróttir og frístundir
  • Mikilvægt er að öll börn hafi jöfn tækifæri til þátttöku í íþrótta- og frístundastarfi.Skoða hækkun frístundastyrks eða aðrar útfærslur á greiðslu æfingagjalda, til dæmis að forráðamönnum gæfist kostur á að greiða tímagjald. Aðstaða til hreyfingar á skólalóðum sé einnig aðgengileg og góð.
  • Skyndihjálpar kennsla í grunnskólum Kópavogs
  • Skyndihjálparkennsla sé markvisst kennt í öllum grunnskólum Kópavogs og tekur mið af hverju aldursstigi.
  • Sporna gegn matarsóun í grunnskólum Kópavogs
  • Það er mikilvægt að sporna gegn matarsóun. Að nemendum gefst kostur á að geta valið þá daga sem þeir kjósa að vera í mat og skammti sér sjálfir á disk.