Uppbygging á Kársnesi

Mynd úr verðlaunatilllögunni Spot on Kársnes, sem var hlutskörpust í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni …
Mynd úr verðlaunatilllögunni Spot on Kársnes, sem var hlutskörpust í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni um Kársnes. Höfundar Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt, Anders Egebjerg Terp landslagsarkitekt og Gunnlaugur Johnson, arkitekt. Þessar tillögur eru í takt við framtíðarsýn svæðisins.

Blönduð byggð íbúða og atvinnuhúsnæðis, vistvænar samgöngur, verslun og þjónusta verða áhersluatriði í uppbyggingu vestasta hluta Kársness. Samhliða uppbyggingu verður reist brú fyrir gangandi, hjólandi og almenningsvagnayfir Fossvog sem tengja mun svæðið við háskólasvæði Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands og miðbæ Reykjavíkur. 

Skipulagslýsing svæðisins og brúar yfir Fossvog er nú í kynningu hjá Kópavogsbæ.

„Kársnesið er eitt mest spennandi svæði á höfuðborgarsvæðinu, það hefur allt, náttúrufegurð, uppbyggingarmöguleika og með brúnni yfir Fossvog batnar tenging hverfisins til mikilla muna,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

„Við leggjum mikinn metnað í gerð skipulags þróunarsvæðis á Kársnesi. Nýtum hugmyndir úr samkeppninni Spot on Kársnes sem Kársnesið var hluti af, vinnum skipulagið í tengslum við framsýna samgönguáætlun, viljum fjölbýlishús sem eru í takt við tímann og fjölbreytta atvinnustarfsemi.“ segir Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður skipulagsráðs.

800 íbúðir á þróunarsvæði

Útivistarmöguleikar svæðisins munu njóta sín í framtíðarskipulagi svæðisins, áhersla verður lögð á opin svæði, greiðfæra hjólastíga og gott aðgengi að strandlengjunni. Þá er sérstaklega hugað að góðri tengingu við eldri byggð á Kársnesi sem er eitt rótgrónasta hverfið í Kópavogi. Þegar hefur verið samþykkt skipulag tveggja reita fyrir fjölbýlishús með um 250 íbúðum og munu framkvæmdir við þær hefjast á næsta ári. Að auki er gert ráð fyrir 550 íbúðum á þróunarsvæðinu.

Íbúðir verða um 60% af húsnæði á þróunarsvæðinu og atvinnuhúsnæði 40%. Gert er ráð fyrir atvinnustarfsemi á jarðhæð nokkurra fjölbýlishúsa, margvíslegri atvinnustarfsemi og ferðatengdri þjónustu.

Gert er ráð fyrir að uppbygging svæðisins taki á bilinu 10-20 ár.

Skipulag í kynningu

Efnt var til íbúafundar til að kynna skipulagslýsingar fyrir þróunarsvæðið á Kársnesi og brú yfir Fossvog sem og framtíðarsýn á Kársnesi.  Að loknum erindum voru umræður og komu mörg áhugaverð sjónarmið fram á fundinum sem var vel sóttur.

Gögn af kynningarfundinum er að finna hér.

Skipulagslýsingu fyrir þróunarsvæði á Kársnesi er að finna hér.

Skipulagslýsing fyrir brú yfir Fossvog er hér.

Senda má inn athugasemdir og ábendingar við skipulagslýsingarnar tvær til 22.desember nk. Athugasemdir skulu sendast á skipulag@kopavogur.is eða á Skipulags- og byggingardeild Umhverfissviðs í Fannborg 6, 200 Kópavogi.