Uppbygging í Smáranum

Hér mun byggðin rísa
Hér mun byggðin rísa

Kópavogsbær, Smárabyggð ehf. og Reginn fasteignafélag hafa undirritað samkomulag um uppbyggingu í Smáranum, nýju hverfi sunnan Smáralindar. Markmið samkomulagsins er að styrkja svæðið sem öflugt, vistvænt og eftirsóknarvert íbúðar- og verslunarsvæði í miðju höfuðborgarsvæðisins og að nýta núverandi innviði bæjarfélagsins betur. 

Fyrirhugað er að reisa 620 íbúðir á svæðinu í 15 húsum. Gert hafði verið ráð fyrri 500 íbúðum á svæðinu en unnið er að breytingu á aðalskipulagi til að fjölga íbúðum, án þess að byggingarmagn aukist. Er það í samræmi við tillögur húsnæðisnefndar Kópavogs sem kynntar voru síðastliðið haust þar sem bent var á þörf á minni og ódýrari íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.

Við skipulag svæðisins verður litið til yfirbragðs og hæðar byggðar, vistvænna lausna, opinna svæða, aðgengis og tenginga við aðliggjandi svæði, gæða sem og fjölbreytts íbúðarforms. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir um áramótin og verður uppbyggingu á svæðinu lokið innan átta ára samkvæmt samkomulaginu.