Upplýsingamiðstöð flytur í Ráðhús Reykjavíkur

Móttaka upplýsingamiðstöðvar Reykjavíkur
Móttaka upplýsingamiðstöðvar Reykjavíkur

Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík var opnuð í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag, 16. janúar kl. 8 en miðstöðin hefur verið starfrækt í Aðalstræti 2 frá árinu 2002. Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík spilar stórt hlutverk í samstarfi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu undir merkjum Reykjavík loves. Markmið samstarfsins er að kynna ný svæði fyrir ferðamönnum og minnka álag á viðkvæma staði í borgarlandinu. Með því að dreifa ferðamönnum nýtist betur afþreying og þjónusta á svæðinu í heild. 

Flutningur Upplýsingamiðstöðvarinnar er liður í því að nýta húsnæði í eigu borgarinnar enn betur og auka þjónustu í Ráðhúsi Reykjavíkur. Miðstöðin er á jarðhæð Ráðhússins þar sem gönguás liggur í gegnum húsið en hann er hugsaður sem hluti af göngustígakerfi borgarinnar, þar sem almenningur getur komið saman og fylgst með því sem um er að vera í húsinu hverju sinni. Jarðhæð hússins er því tilvalin staðsetning fyrir upplýsingamiðstöðina.  Að jafnaði starfa níu manns hverju sinni í miðstöðinni og er hún opin alla daga ársins frá kl. 8.00-20.00 nema á jóladag. Opnunartími Ráðhússins mun því lengjast sem því nemur.Reykjavíkurborg og Höfuðborgarstofa reka Upplýsingamiðstöð ferðamanna með styrk frá Ferðamálastofu og nú í samstarfi við fyrirtækið Guide to Iceland. 

Miðstöðin er sá staður í Reykjavík þar sem flestir erlendir ferðamenn hafa viðkomu og margir ákveða í framhaldinu hvernig Íslandsheimsókninni verði best varið. Á síðasta ári fengu 475.000 ferðamenn aðstoð og þjónustu á Upplýsingamiðstöðinni í Aðalstræti sem var 28% fjölgun frá árinu áður og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Í miðstöðinni eru veittar óháðar og áreiðanlegar upplýsingar. Áhersla í bókun og sölu er auk þess á markvissa dreifingu ferðamanna, ábyrga ferðamennsku og öryggi þeirra á ferð um landið.Einnig er lögð áhersla á að kynna menningu og listir fyrir ferðamönnum og aðgengi þeirra að viðburðum auðveldað í gegnum miðlæga miðasölu.

Miðstöðin hefur átt í árangursríku samstarfi við Safe Travel sem er rekið af Landsbjörgu. Í Upplýsingamiðstöð ferðamanna er tryggt að nýjustu upplýsingar um mikilvæga öryggisþætti séu aðgengilegar ferðamönnum og gegnir miðstöðin þannig mikilvægu hlutverki þegar kemur að öryggi ferðamanna.