Úthlutað úr Forvarnarsjóði Kópavogs

Styrkþegar Forvarnarsjóðs 2016 ásamt fulltrúum Kópavogsbæjar að lokinni afhendingu styrkja 2016.
Styrkþegar Forvarnarsjóðs 2016 ásamt fulltrúum Kópavogsbæjar að lokinni afhendingu styrkja 2016.
Styrkir Forvarnarsjóðs Kópavogs voru afhentir í þriðja sinn þriðjudaginn 21. Júní. Hæsta styrkinn, 500.000 krónur, hlaut verkefnið Tónlist – aukin lífsgæði. Verkefnið er á  vegum á Hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar og hefur það að markmiði að auka tónlistarhlustun í daglegu lífi íbúa og þeirra sem sækja dagvistun í Sunnuhlíð.  Alls voru veittir sjö styrkir úr sjóðnum og fór afhendingin fram í Sunnuhlíð.

 

Auk verkefnisins Tónlist – aukin lífsgæði hlutu eftirfarandi verkefni styrk: Ungmennaráð Kópavogs hlaut 260.000 kr. fyrir verkefnið jafningjafræðsla um geðheilbrigði, félagsmiðstöðvar barna og unglinga fengu 180.000 til verkefnisins Markvissara fornarstarf, félagsmiðstöðvar eldri borgara í Kópavogi og félag eldri borgara fengu 150.00 til verkefnis sem ber heitið Félags og tómstundavinir og hefur það að markmiði að virkja félagslega einangraða til þátttöku í tómstunda og félagsstarfi, læknanemar hlutu 100.000 til fræðslu framhaldsskólanema um kynfræðslu, fjölgreinastarf Lindakirkju hlaut 100.000 fyrir sértækt hópastarf fyrir félagslega einangraða krakka. Loks fékk IOGT styrk fyrir barna og unglingastarf.

 

Forvarnarsjóður var stofnaður var í byrjun árs 2014. Úthlutað er úr honum einu sinni á ári samkvæmt tillögum frá forvarna og forvarna- og frístundanefnd.  Hlutverk sjóðsins er að stuðla að öflugu forvarna- og frístundastarfi í Kópavogi með það að markmiði að veita einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum og stofnunum styrki til verkefna sem hafa það að leiðarljósi að efla forvarna- og frístundastarf Kópavogsbúa. Lögð er áhersla á að styrkja samstarf þeirra aðila sem koma að málaflokknum í Kópavogi.  

Auk úthlutunar á forvarnastyrkjum  stendur Forvarnasjóður Kópavogs fyrir því að fá rannsóknarniðurstöður um líðan ungs fólks í Kópavogi . Slíkar niðurstöður nýtast öllum sem koma að málefnum barna og unglinga í Kópavogi.