Úthlutað úr Lista- og menningarsjóði

Handhafar styrkja Lista- og menningarráðs 2018 ásamt ráðinu.
Handhafar styrkja Lista- og menningarráðs 2018 ásamt ráðinu.

Danstíværingurinn Ís heitur Kópavogur, Tónlistarhátíð unga fólksins og tónleikaröð kennara Tónlistarskóla Kópavogs hljóta hæstu styrki úr sjóði Lista- og menningarráðs Kópavogs í úthlutun sem fram fór við hátíðlega athöfn í Gerðarsafni miðvikudaginn 24.janúar. Ís heitur Kópavogur fær eina milljón en tvö hin síðarnefndu 650.000 þúsund krónur hvort.

Fjörtíu umsóknir bárust Lista- og menningarráði en sjóðurinn hefur yfir að ráða um fimmtíu milljónum króna.

Þjóðlagasveitirnar Þula og Regnboginn, sem skipuð er ungum tónlistarmönnum, fá 500.000 króna styrk, Kammerhópurinn Reykjavík Barokk hlýtur 300.000 kr. til að flytja Stabat Mater og A&R Photos fær 200.000 kr. fyrir ljósmyndasýningu sem tvinnar saman listir og íþórttir. Þá fá Þórunn Elín Pétursdóttir og Lenka Mateova 100.000 kr. styrk fyrir tónleika í Kópavogskirkju, Erlusjóður fær sömu upphæð fyrir dagskrá í minningu Þorsteins Valdimarssonar í Salnum og Bókasafninu og Camerarctica fær einnig 100.000 kr. fyrir tónleikana Mozart við Kertaljós.

Fyrri úthlutanir sjóðsins

Lista- og menningarráð Kópavogs mun á þessu ári einnig veita kr. 6.000.000,- styrk til listahátíðarinnar Cycle, kr. 3.500.000 til listaverkakaupa Gerðarsafns, kr. 4.500.000 til Tíbrár tónleikaraðar Salarins auk tónlistarsmiðju og kr. 1.500.000 til ljóðahátíðar Jóns úr Vör.

Ýmsir menningarhópar sem starfa innan bæjarins hljóta starfsstyrki fyrir árið 2018, sem flestir nema á bilinu kr. 100.000-200.000, en þeir eru Ljóðahópur Gjábakka, Sögufélag Kópavogs, Samkór Kópavogs, Söngvinir - kór aldraðra, Karlakór Kópavogs, Kvennakór Kópavogs, Ritlistarhópi Kópavogs.

Á síðasta ári undirritaði lista- og menningarráð 3ja ára samning við Leikfélag Kópavogs, sem felur í sér árlegan styrk að upphæð kr. 3.200.000,-  Þá veitir lista- og menningarráð bæjarlistamanni árlega styrk að upphæð kr. 1.500.000,-

Í anda menningarstefnu Kópavogsbæjar hyggst ráðið enn fremur stuðla að eflingu viðburðadagskrár Menningarhúsanna í Kópavogi með veglegu framlagi: Fjölskyldustundir kr. 3.000.000,   Barnamenningarhátíð kr. 2.000.000, Safnanótt kr. 2.000.000 og Menningu fyrir alla, tónlistarkynningu í Salnum fyrir 1.-7. bekk kr. 1.000.000. Ráðið hefur einnig úthlutað tæpum kr. 10.000.000 til sautjánda júní dagskrár bæjarins.

Karen Elísabet Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs sagði við þetta tilefni: „Lista- og menningarráð hefur það að markmiði að efla menningarlif í Kópavogi og starfa í anda menningarstefnu bæjarins. Það gerir ráðið með því að styrkja metnaðarfullt menningarstarf sem höfðar bæði til fullorðinna og barna og styður við fjölmargar listgreinar og starf stærri og smærri hópa. Menningarstarf í Kópavogi verður í ár sem fyrr afar öflugt, fjölbreytt og spennandi.“