Úthlutunarreglur skýrari og ótvíræðari

Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs
Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs

Reglur Kópavogsbæjar um úthlutun á byggingarrétti fyrir íbúðarhúsnæði eru mun skýrari og ótvíræðari nú en þær voru árið 2005. Því ættu ágreiningsatriði þau sem fram koma í dómi Hæstaréttar frá því fyrir jól ekki að rísa aftur.

Í dómnum kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að bærinn hafi árið 2005 mismunað umsækjendum um byggingarrétt á Kópavogstúni með ólögmætum hætti með því að útiloka þá frá því að koma til álita við úthlutun á tveimur lóðum sem sótt var um til vara.

„Vinnubrögð við lóðaúthlutanir í Kópavogi hafa harðlega verið gagnrýnd á undanförnum árum og hafa þær m.a. verið taldar ólögmætar í þeim tilfellum sem umsækjendur hafa óskað álits innanríkisráðuneytisins, áður félagsmálaráðuneytisins, eða dómstóla,“ segir Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs.

Úthlutunarreglum bæjarins hefur í tvígang verið breytt frá 2005 og þær gerðar skýrari og gegnsærri, nú síðast þann 11. október 2011. Ef umsækjendur um lóð eru fleiri en einn skal nú dregið á milli þeirra sem uppfylla skilyrði um fjárhagsstöðu og hafa ekki fengið úthlutun á síðustu tíu árum.

Afnumið hefur verið það ákvæði að bæjarráð meti umsækjendur út frá fjölskylduaðstæðum, búsetu og fjárhags- og húsnæðisaðstöðu, en um það var m.a. tekist í fyrrgreindu máli í Hæstarétti.
Þá er það framkvæmdaráð, í stað bæjarráðs áður, sem auglýsir byggingarrétt á lóðum, annast afgreiðslu umsókna og gerir tillögu til bæjarstjórnar um úthlutun.

„Umsækjendur um lóðir í Kópavogi geta nú treyst því að umsóknir þeirra verða metnar faglega og málefnalega,“ segir Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs.