Útskriftarsýning LHÍ í Gerðarsafni

Gerdarsafn
Gerdarsafn

Útskriftarsýning meistaranema í hönnun og myndlist við Listaháskóla Íslands, LHÍ, opnar í Gerðarsafni laugardaginn 12. apríl klukkan þrjú. Sýningin markar tímamót því þetta er fyrsta útskriftarsýning meistaranema frá LHÍ. Alls sýna tíu nemendur verk sín.

Kópavogsbær og LHÍ gerðu með sér samkomulagi í október síðastliðnum að útskriftarsýningar LHÍ yrðu haldnar í Gerðarsafni. Samkomulagið er til þriggja ára og er sýningin á laugardag sú fyrsta í röðinni.

Alþjóðlegt meistaranám í myndlist og hönnun hófst í Listaháskóla Íslands haustið 2012 og er þetta því fyrsti árgangurinn sem setur fram MA- verk sín á sérstakri útskriftarsýningu. Á sýningunni má sjá afrakstur tveggja ára háskólanáms á meistarastigi þar sem hönnuðir og myndlistarmenn hafa fengið tækifæri til að efla þekkingu og þróa rannsóknir sínar á viðkomandi fagsviðum. Áhersla er lögð á skapandi og greinandi hugsun sem nýtist við framsækin verkefni á fagsviðum hönnunar og myndlistar á Íslandi.

Það eru tíu nemendur sem sýna eru þau Ásgeir Matthíasson, Björg Vilhjálmsdóttir og Gréta Guðmundsdóttir, sem eru að ljúka MA gráðu af námsbraut í hönnun, og Halldór Ragnarsson, Katla Rós Völu- og Gunnarsdóttir,  Kristín Helga Káradóttir, Kristín Gunnarsdóttir, Pia Antonsen Rognes, Ragnar Már Nikulásson og Rán Jónsdóttir sem ljúka MA gráðu af námsbraut í myndlist.  

Sýningarstjóri er Birta Guðjónsdóttir.

Sýningin stendur til 11. maí og er opin á opnunartíma safnsins þriðjudag til sunnudags
kl. 11:00 - 17:00. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.