Vegleg gjöf frá ekkju Kristjáns Kristjánssonar

Bjarki Sveinbjörnsson, forstöðumaður Tónlistarsafns Íslands ásamt Erlu Wigelund Kristjánsson, ekkju…
Bjarki Sveinbjörnsson, forstöðumaður Tónlistarsafns Íslands ásamt Erlu Wigelund Kristjánsson, ekkju tónlistarmannsins Kristjáns Kristjánssonar (KK sextettinn).

Erla Wigelund Kristjánsson, ekkja tónlistarmannsins Kristjáns Kristjánssonar (KK sextettinn), hefur afhent Tónlistarsafni Íslands allar útsetningar hljómsveitarinnar. Það var gert við hátíðlega athöfn í safninu um liðna helgi. Í gjöfinni eru m.a. handrit af hundruðum laga sem útsett voru af meðlimum hljómsveitar Kristjáns í gegnum árin. 

Einnig má finna útgefnar nótur, erlendar og innlendar, af öllum helstu dægurlögum frá þeim tíma sem hljómsveitin starfaði. Aukinheldu eru í safninu ýmis bréf og samningar hljómsveitarinnar.

Bjarki Sveinbjörnsson, forstöðumaður Tónlistarsafns Íslands, segir að nótna- og gagnasafnið sé merk heimild um starfsemi einnar vinsælustu dægurhljómsveitar sem starfaði á landinu um miðbik síðustu aldar. „Gögnin verða varðveitt hjá Tónlistarsafni Íslands, í samvinnu við Landsbókasafn Íslands, handritadeild. Safnið mun hafa aðgang að þeim til sýningar skapist tækifæri til þess.“ 

Bjarki segir að safnkosturinn myndi mikilvæg tengsl inn í dægurmenningu þjóðarinnar, „en íslensk söfn hafa lítið sinnt því að safna heimildum um þenna þátt íslenskrar menningar fram að þessu.“ 

Á meðfylgjandi mynd má sjá Bjarka Sveinbjörnsson, forstöðumann Tónlistarsafns Íslands og Erlu Wigelund Kristjánsson.

Tónlistarsafn Íslands