Vel heppnaður stofnfundur Kópavogsfélagsins

Ný stjórn ásamt bæjarstjóra.
Ný stjórn ásamt bæjarstjóra.

Fjölmenni var á stofnfundi Kópavogsfélagsins sem haldinn var nýverið í bæjarstjórnarsal Kópavogsbæjar. Á fundinum voru kjörnir þrír nýir fulltrúar í stjórn félagsins og einn til vara. Í stjórn voru kjörin: Valgerður Einarsdóttir, formaður Hringsins, Hrafn A. Harðarson bæjarbókavörður og Þorleifur Friðriksson sagnfræðingur. Eiríkur Valdimarsson þjóðfræðingar var kjörinn varamaður.

Kópavogsfélagið er félag áhugafólks um endurreisn Hressingarhælisins og Kópavogsbæjarins en bæjaryfirvöld ýttu þessu verkefni úr vör. Fyrir hönd bæjarins eru í stjórn þau Margrét Björnsdóttir formaður, Garðar H. Guðjónsson, Kristinn Dagur Gissurarson og Una Björg Einarsdóttir en sú síðastnefnda er varamaður.

Tilgangur félagsins er tvíþættur. Annars vegar er stjórn félagsins ætlað að ljúka hugmyndavinnu og gera tillögur til bæjarráðs um hvaða starfsemi eigi að vera í húsunum tveimur. Stjórninni ber að skila bæjarráði rökstuddum tillögum um þetta eigi síðar en þremur mánuðum eftir stofnfund. Hins vegar er félaginu ætlað að afla fjár til framkvæmda við endurbyggingu húsanna, en þau voru bæði friðuð á síðasta ári.

Þegar hefur þriggja manna starfshópur á vegum bæjarstjórnar  unnið að undirbúningi málsins undanfarna 12 mánuði. Hópurinn skilaði greinargerð og tillögu til bæjarstjórnar í júní 2012 og mun hugmyndavinna á vegum Kópavogsfélagsins byggja á niðurstöðum hópsins og samþykkt bæjarstjórnar. Í september síðastliðnum ákvað bæjarstjórn að endurreisn bygginganna skyldi hefjast í ársbyrjun 2013.
 
Ráðgert er að framkvæmdum ljúki og starfsemi hefjist í húsunum á 60 ára afmæli Kópavogsbæjar 11. maí 2015.