Vel heppnuð aðventuhátíð

Aðventuhátíð 2019.
Aðventuhátíð 2019.

Hátíðarstemningin var í hámarki í Kópavogi laugardaginn 30. Nóvember þegar aðventuhátíð Kópavogs var haldin. Vel var mætt á þá fjölmörgu viðburði sem í boði voru og voru gestir verulega ánægðir með daginn.

 Á aðventuhátíðinni buðu Menningarhúsin í Kópavogi uppá fjölbreytta dagskrá fyrir unga sem aldna. Á Gerðarsafni var boðið upp á pólsk-íslenska föndursmiðju og á bókasafninu gátu gestir útbúið sínar eigin pakkaumbúðir, skreytt jólatré og skipt út gömlu jólaskrauti fyrir nýtt. Valgerður Guðnadóttir, söngkona, bauð uppá skemmtilega jólatónleika í Salnum ásamt Sigurði Helga Oddssyni, píanóleikara, og Thomas Wadelton, steppdansara frá Ástralíu. Einnig fluttu Kvennakór og Karlakór Kópavogs, flautukór úr skólahljómsveit Kópavogs og nemendur úr Tónlistarskóla Kópavogs undurfagra jólatónlist í Gerðarsafni og á Gjábakka.

 

Mikill jólaandi var yfir öllu svæðinu og var búið að setja upp jólaþorp á útisvæði Menningarhúsanna þar sem hægt var að kaupa fjölbreyttan varning og veitingar.

 

Jólastemningin náði svo hámarki þegar forseti bæjarstjórnar, Margrét Friðriksdóttir, tendraði á ljósum jólatrésins ásamt hópi ungra Kópavogsbúa. Í kjölfarið mætti söngkonan Salka Sól á svæðið og fimm glaðvaskir jólasveinar og var yngsta kynslóðin virkilega ánægð með þá uppákomu. Dagurinn var verulega vel heppnaður í alla staða og tóku Kópavogsbúar fagnandi á móti aðventunni.