Vel heppnuð hátíð í Hamraborginni

Hamraborgarhátíðin
Hamraborgarhátíðin

Fjöldinn allur af fólki streymdi í Hamraborgina í dag til að taka þátt í hinni árlegu Hamraborgarhátíð. Götunni var lokað fyrir bílaumferð og henni breytt í göngugötu um stund. Kópavogsbúar seldu varning beint úr skottinu á bílum sínum og Sirkús Íslands lék listir sínar.

Björn Thoroddsen gítarleikari tók forskot á Jazzhátíð Kópavogs og spilaði og söng ásamt Rannveigu Ásgeirsdóttur bæjarfulltrúa og formaður Regnbogabarna og leikarinn, Stefán Karl Stefánsson, seldi kandíflos, ullarvörur og fleira til stuðnings góðu málefni.

Markmið hátíðarinnar er að skapa miðbæjarstemmningu í Hamraborginni og lífga upp á þennan gamla miðbæ Kópavogs. Hátíðin var að mestu skipulögð af sjálfboðaliðum og fyrirtækjunum í Hamraborginni með stuðningi Kópvogsbæjar.

Á sama degi var opnuð í Gerðarsafni sýning á verkum Jóhönnu Kristínar Yngvadóttur Hraunfjörð sem lést um aldur fram fyrir rúmum tveimur áratugum. Sýningin stendur yfir til 13. október.

Veðurguðirnir voru bæjarbúum hliðhollir og sólskin í allan dag þrátt fyrir að horfurnar hefðu um tíma ekki verið góðar.

Fleiri myndir eru á Facebook-síðu Kópavogsbæjar.