Vel heppnuð jafnréttisvika

Áhugasamir nemendur á jafnréttisviku MK 2015.
Áhugasamir nemendur á jafnréttisviku MK 2015.

Jafnréttisvika  MK var haldin í níunda sinn vikuna 2. Til 5. mars. Dagskrá jafnréttisvikunnar, sem styrkt er af Jafnréttisráði Kópavogs, var fjölbreytt og vel sótt af nemendum og kennurum. Meðal þess sem boðið var upp á voru fyrirlestrar um ýmis mál sem tengjast jafnrétti, sýning heimildamynda en vikunni lauk með heimsókn uppistandara. Dagskráin fór fram í matsal MK og var bekkurinn þétt settinn á öllum viðburðum.

MK voru fyrstir framhaldsskóla til þess að halda jafnréttisviku og hafa einir skóla haldið hana á hverju ári frá árinu 2007. Dagskráin er jafnan metnaðarfull og var árið í ár engin undantekning. Meðal þeirra sem sóttu skólann heim að þessu sinni voru Hrafnhildur Ragnarsdóttir sem hélt fyrirlestur um hefndarklám, Sylvia Briem sem ræddi um samskipti á samfélagsmiðlum og Jóna Pálsdóttir og Eyrún Einarsdóttir ræddu um kynferðisofbeldi.

Dagskránni lauk með heimsókn Sögu Garðarsdóttur og Þorsteins Guðmundssonar uppistandara. Þá bauð skólinn upp á pylsur og djús og tóku Lárus Axel  Sigurjónsson fulltrúi úr Jafnréttisráði Kópavogs og Ása Arnfríður Kristjánsdóttir jafnréttisfulltrúi Kópavogsbæjar þátt í að afgreiða pylsurnar ásamt kennurum skólans.

Jafnréttisvikan er hluti af jafnréttisstefnu MK sem samþykkt var í mars 2012.