Vel sótt uppskeruhátíð í Salnum

Ásdís Kritsjánsdóttir, bæjarstjóri, setti hátíðina formlega.
Ásdís Kritsjánsdóttir, bæjarstjóri, setti hátíðina formlega.

Uppskeruhátíð Skapandi Sumarstarfa í Kópavogi fór fram í Salnum fimmtudaginn 17. ágúst. Í ár er 18. sumarið sem ungt listafólk starfar á vegum Kópavogsbæjar í skapandi verkefnum. Verkefnin í ár voru 17 talsins en að baki þeim stóðu 25 ungir listamenn.

Hátíðin var vel sótt og var þetta í fyrsta skipti sem listafólki Skapandi Sumarstarfa gafst að sýna afrakstur sumarsins í Salnum. Listamannabásum var komið fyrir í forsalnum þar sem gestir gátu skoðað bækur og skúlptúra og horft á vídjóverk.

 

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri, setti hátíðina formlega en dagskráin stóð yfir frá 17-19. Sýningin hófst á ljúfum djasstónum hljómsveitarinnar Slagsmál og lauk með trylltum danstakti tónlistartvíeykisins Hreyfingar. Meðal atriða sem komu fram var brot úr leikriti Kötlu Yamagata og Gríms Smára, brot úr stuttmyndinni Lundur eftir Magnús Thorlacius og nýtt uppistand flutt af Ingu Steinunni.