Tólf grunnskólabörn úr Kópavogi voru í dag verðlaunuð á ljóðahátíð í Salnum fyrir ljóð sem þau sendu inn í ljóðasamkeppni grunnskólanna
Tólf grunnskólabörn úr Kópavogi voru í dag verðlaunuð á ljóðahátíð í Salnum fyrir ljóð sem þau sendu inn í ljóðasamkeppni grunnskólanna í bænum. Nemendur úr fimm skólum sendu ljóð í keppnina sem haldin er í annað sinn í ár. Þau sem urðu í þremur efstu sætunum eru Ester Hulda Ólafsdóttir, Hörðuvallaskóla, fyrir ljóð sitt Tunglið. Lára Pálsdóttir, Lindaskóla, fyrir ljóð sitt Árstíðirnar og Patrik Snær, Hörðuvallaskóla, fyrir ljóð sitt Nóttin.
Ljóðasamkeppni grunnskólanna er haldin í tengslum við hina árlegu ljóðasamkeppni lista- og menningarráðs sem kennd er við skáldið Jón úr Vör. Markmiðið er að efla áhuga barna og ungmenna á ljóðagerð.
Fjöldi grunnskólabarna í bænum tók þátt og dómnefnd ljóðasamkeppninnar um Ljóðstaf Jóns úr Vör valdi þrettán verðlaunaljóð og þar af þrjú ljóð sem voru í þremur efstu sætum. Sami höfundur átti tvö ljóð.
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Karen E. Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs, afhentu verðlaunin, bókargjöf og blómvendi. Þau Ester Hulda, Lára og Patrik Snær lásu síðan upp verðlaunaljóðin sín.
Eftirfarandi börn hlutu verðlaun, auk þeirra þriggja sem þegar hafa verið nefnd:
Veröld eftir Friðnýju Karitas í Hörðuvallaskóla
Ástarljóð eftir Ýri G. Adolfsdóttur í Hörðuvallaskóla
Afsökunarljóð eftir Ýri G. Adolfsdóttur í Hörðuvallaskóla
Dansinn eftir Gertrudu Paceviciute í Álfhólsskóla
Ég er eins og ég er eftir Evu Marín Steingrímsdóttur í Salaskóla
Jólin koma eftir Hjört Hilmar K. Benediktsson í Kópavogsskóla
Ljóð eftir Ásdísi Birtu í Hörðuvallaskóla
Nótt og dagur eftir Kolfinnu Ingólfsdóttur í Hörðuvallaskóla
Jólaljóð eftir Guðmund Birni Björnsson í Álfhólsskóla
Að semja ljóð eftir Ósk Hoi Ning Chow Helgadóttur í Álfhólsskóla