Vetrarfríið í menningarhúsum Kópavogs

Gerðarsafn og Salurinn eru á meðal menningarhúsa Kópavogsbæjar.
Gerðarsafn og Salurinn eru á meðal menningarhúsa Kópavogsbæjar.

Dagana 25.-26. febrúar verður vetrarfrí í skólum í Kópavogi. Í tilefni þess verður mikið um að vera í menningarhúsunum við Hamraborgina. Meðal þess sem boðið er upp á er ljósmyndanámskeið í Gerðarsafni, kvikmyndasýningar í Bókasafni Kópavogs, tónleikrit í Salnum og fuglasýning í Náttúrfræðistofu Kópavogs.

Í Gerðarsafni verður boðið upp á tveggja daga ljósmyndanámskeið fyrir 12 ára og eldri þar sem ljósmyndarinn Ingvar Högni Ragnarsson mun kenna grunnatriði í ljósmyndun. Á námskeiðinu verður farið yfir tæknileg atriði og mismunandi aðferðir í ljósmyndun. Ingvar Högni mun ræða inntak verka sinna og aðferðir í sýningunni Uppsprettur, sem stendur yfir í Gerðarsafni, og mun hópurinn gera eigin ljósmyndaverk á sína myndavél eða síma. Námskeiðið er ætlað 12 ára og eldri og fer fram 25. febrúar kl. 13-17 og 26. febrúar kl. 13-16. Takmarkaður fjöldi kemst að og er tekið við skráningu á netfangið gerdarsafn@kopavogur.is 
Í Bókasafni Kópavogs verður kvikmyndasýning á Harry Potter og Eldbikarnum á jarðhæð aðalsafns við Hamraborg á fimmtudaginn 25. febrúar kl. 11-14. Ávaxtasafi og popp verður í boði undir flutningnum. Sama dag verður ratleikur í gangi og vinningar í boði. Á föstudeginum verður kvikmyndasýning á The Spiderwich Chronicles kl. 11-13 á jarðhæð aðalsafns við Hamraborg og Spilavinir verða á safninu kl. 13-15.
 Á Náttúrufræðistofu verður sérsýning um fálka og fugla, sem getið er í gömlum rituðum heimildum, og fuglateikningar eftir Benedikt Gröndal, sem birtist í fyrstu fuglamyndabók sem var gerð á Íslandi.
 Í Salnum verður tónleikritið Heyrðu villuhrafninn mig flutt á laugardeginum 27. febrúar kl. 13. Tónleikhús með óvenjulegum hljóðum, lögum og þulum þar sem er sagt frá ævintýrum Fíu frænku og vini hennar Dúdda þar sem Villuhrafninn, dvergurinn Bokki og leiðindaskjóðan Bárðabunga koma við sögu. Herdís Anna Jónsdóttir víóluleikari og Steef van Oosterhout slagverksleikari flytja hljóðleikritið, sem er 40 mín á lengd.​​