Vetrarhátíð í Kópavogi 2024

Vetrarhátíð er 1.-3.febrúar 2024.
Vetrarhátíð er 1.-3.febrúar 2024.

Forvitnileg og fjörug dagskrá verður á Vetrarhátíð í Kópavogi en hátíðin samanstendur af Safnanótt, Sundlaugakvöldi og ljósalist ásamt ótal viðburðum og sýningum þar sem fjöldi listafólks tekur þátt í að skapa rafmagnað andrúmsloft í Kópavogi.

Vatnaballett og varðveislurými, lúðurþeytarar og ljóðagjörningar, stjörnuskoðun og spádómar, silent diskó, Sigga Kling og miðausturlensk músíkveisla svo bara fátt eitt sé talið. Listamaðurinn Eygló Harðardóttir sýnir nýtt ljóslistaverk sitt, Sviðsmyndir, sem gert er sérstaklega fyrir Vetrarhátíð í Kópavogi og varpað verður á Kópavogskirkju bæði föstudags- og laugardagskvöld frá 19:30 – 24:00.

Fjölbreytt og litrík dagskrá sem nærir og kætir í Bókasafni Kópavogs, Gerðarsafni, Náttúrufræðistofu Kópavogs, Salnum, Molanum, í sýningarými Y við Hamraborg, Hljóðbókasafni, Kópavogskirkju og Sundlaug Kópavogs.

Ókeypis er i sund á Sundlauganótt og í öll söfn á Safnanótt. Frír aðgangur á alla viðburði og öll hjartanlega velkomin á alla viðburði svo lengi sem húsrúm leyfir.

Fimmtudagur 1. febrúar

Sundlaug Kópavogs
Opið til 22:00

18:00 – 18:30 Töframaðurinn Einar Aron
Einar Aron er einn yngsti töframaður landsins en hefur þrátt fyrir það komið víða við og skapað sér nafn sem eftirsóttur töframaður, bæði meðal barna og fullorðinna.

18:30 – 18:50 Skólahljómsveit Kópavogs
Sprellfjörug lagasyrpa með lúðurþeyturum framtíðarinnar.

20:00 – 21:00 Sundballetthópurinn Eilífðin
Mynsturæfingar, samhæfing, klisjur, hlátur, frábær tónlist og gleði. Við lærum þvottavélina, lærum krókódílatæknina, síldartorfuna og sitthvað fleira. Sundballethópurinn Eilífðin eru systurnar Margrét Erla Maack, fjöllistadís og Vigdís Perla Maack, sviðslistakona.

Föstudagur 2. febrúar

Bókasafn Kópavogs
Opið til 23:00

18:00 – 18:30 Ljóðagjörningur (2. hæð)
Eyrún Ósk Jónsdóttir flytur ljóð úr ljóðabók sinni „Úr svartnættinu miðju skín ljós“ við trommuundirleik Akeem Richards sem spilar á afrískar trommur.

18:00 – 20:00 Stjörnumerkjaperl og stjörnumerkjabarmmerki (3. hæð)
Hvaða stjörnumerki ertu? Hrútur, vatnsberi, fiskur eða naut? Komum saman og perlum okkar eigið stjörnumerki eða búum til flott stjörnumerkjabarmmerki á Safnanótt.

19:00 – 22:00 Silent diskó (2. hæð)
Bókasafnið breytist í hljóðlátan næturklúbb á Safnanótt þegar boðið verður upp á Silent diskó á annarri hæð safnsins.

21:00 – 21:30 Síðkvöldstónleikar með Margréti Eir (2. hæð)
Ljúfar útsetningar á kunnum popplögum úr öllum áttum, nýjum og gömlum. Börkur Hrafn Birgisson leikur á gítar.

21:00 – 23:00 Sigga Kling á Safnanótt
Spákonan og gleðigjafinn Sigga Kling verður á vappi um Bókasafn Kópavogs á Safnanótt, kíkir í kristalskúluna og miðlar til gesta af sinni alkunnu visku.

22:00 – 23:00 Kvöldstund með Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Braga Páli (2. hæð)
Bergþóra og Bragi Páll rithöfundar spjalla um lífið og listina og lesa úr skáldsögum sínum Duft og Kjöt.

Gerðarsafn
Opið til 23:00

18:00 – 18:45 Venjulegir staðir / Joe Keys og Haraldur Jónsson á Safnanótt
Haraldur Jónsson og Joe Keys veita innsýn í verk sín á sýningunni Venjulegir staðir í Gerðarsafni

20:00 – 23:00 Leiðsögn og innsýn í Moltu, þverfaglega innsetningu

21:30 – 22:00 Innlit í varðveislurými Gerðarsafns
Hulinn heimur varðveislurýmisins afhjúpaður gestum á Safnanótt

Ókeypis á allar sýningar í Gerðarsafni á Safnanótt

Hljóðabókasafn Íslands (v. Digranesveg 5)
Opið frá 18 – 22

19:30 – 19:45 Lúðrasveit verkalýðsins blæs í baráttulúðra
20:30 – 21:00 Nemendur úr framhaldsbraut Klassíska listdansskólans sýna frumsamið verk. Innblásturinn er tekinn frá hversdagslegum hreyfingum, atburðum og stöðum.

Komið og prófið að lesa inn sögur úr ótrúlegu ímyndunarafli gervigreindarinnar, sjáið atvinnulesara að störfum eða lærið fluguhnýtingar. Öll velkomin!

Kópavogskirkja

18:30 – 24:00 Sviðsmyndir. Nýtt ljóslistaverk eftir Eygló Harðardóttur.
Verkið Sviðsmyndir er vídeóverk sem leggst eins og gegnsæ himna á Kópavogskirkju.

Molinn – menningarhús ungmenna v. Hábraut 2

21:00 – 23:00 Tilraunakvöld listamanna
Tónlistafólk, uppistandarar, dansarar og myndlistamenn stíga á svið og sýna áhorfendum brot af fjölbreyttum verkum í vinnslu.

Náttúrufræðistofa Kópavogs

18:00 – 23:00 Náttúrubingó um Borgarholtið
Hver er þessi umtalaði vetrarbúningur náttúrunnar? Hvað er hægt að skoða þegar hún sefur, ef hún gerir það nokkurn tímann?Náttúrubingó með vetrarþema. Falleg baverðlaun fyrir heppna bingóspilara.

18:45 – 19:00 Lúðrasveit verkalýðsins
Eldhress lagasyrpa með einni skemmtilegustu lúðrasveit landsins.

19:00 – 20:00 Stjörnuskoðun með Stjörnu-Sævari
Skyggnst verður upp í himininn á Safnanótt, spáð í stjörnur og Júpíter skoðaður í gegnum sjónauka ef veður leyfir.

Salurinn

20:00 – 21:00 Layali Fairuz | Nætur Fairuz
Líbanska söngkonan Fairuz er dýrkuð og dáð víða um heim. Hér hljómar hrífandi tónlist Fairuz í flutningi einvala hóps tónlistarfólks og gestasöngvara.

y-gallerý

17:00 – 19:00 Opnun á sýningu Bjarna Þórs Péturssonar

Laugardagur 3. febrúar

Gerðarsafn

15:00 -16:00 Gerðarverðlaunin
Lifandi tónlist í flutningi Davíðs Þórs Jónssonar. Nýr handhafi Gerðarverðlauna tekur á móti viðurkenningu.

Kópavogskirkja

18:30 – 24:00 Sviðsmyndir. Nýtt ljóslistaverk eftir Eygló Harðardóttur
Verkið Sviðsmyndir er vídeóverk sem leggst eins og gegnsæ himna á Kópavogskirkju.