Vettvangur fyrir ungt listafólk

Gerðarsafn og Salurinn eru á meðal menningarhúsa Kópavogsbæjar.
Gerðarsafn og Salurinn eru á meðal menningarhúsa Kópavogsbæjar.

Fjölmargir nýir áfangar litu dagsins ljós í menningarstarfi á vegum Kópavogsbæjar 2015. Má nefna nýja tónlistarhátíð CYCLE, Music and Art festival, sem var tilnefnt til tveggja menningarverðlauna á árinu. Hátíðin er skipulögð af ungu tónlistarfólki og fer aftur fram í Kópavogi í október. Af öðru má nefna skipulagðari menningarfræðslu fyrir skólabörn úr Kópavogi, þróun útivistarsvæðis við menningarhúsin og opnun nýs kaffihús, Garðskálans í Gerðarsafni, en rekstur þess var boðinn út um mitt ár. 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri ársskýrslu um menningarstarf á vegum Kópavogsbæjar á árinu 2015. Er þetta í fyrsta sinn sem slík yfirlitsskýrsla er gefin út um menningarstarf á vegum bæjarins.

Aðrar nýjungar í menningarstarfinu undanfarin ár eru brautskráningartónleika tónlistardeildar Listaháskóla Íslands í Salnum og útskriftarsýningu meistaranema í myndlist og hönnun í Gerðarsafni en samstarfið við LHÍ er liður í að gefa ungu listafólki tækifæri til að kynna listsköpun sína í menningarhúsum bæjarins.

Karen E. Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs segir að með nýrri menningarstefnu sem samþykkt hafi verið í lista- og menningarráði og í bæjarstjórn vorið 2015 hafi tekist að skerpa sýn og fókusinn í menningarstarfi bæjarins.  Fjölmargir aðilar hafi komið að stefnumótuninni, meðal annars fulltrúar kóra, eldri borgara, skóla, hverfaráða, listamanna, starfsmenn menningarhúsa og bæjarfulltrúar. „Það er ánægjulegt að sjá hvað við náðum mörgum og góðum áföngum í starfinu á síðasta ári og gefur aukning í aðsóknartölum til kynna að Kópavogsbúar og aðrir gestir kunni vel að meta það sem við erum að gera,“ segir hún og bendir jafnframt á nýbirta þjónustukönnun sveitarfélaga. 

Þar kemur fram að fleiri Kópavogsbúar eru ánægðir nú með hvernig bærinn sinnir menningarmálunum en á árinu 2013. Ánægjuaukningin er um 7% á tveimur árum. Alls 68% segjast nú ánægð með það hvernig Kópavogsbær sinnir menningarmálunum en 29% eru hvorki ánægð né óánægð.