Vináttudagur í Kópavogi

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, vináttubangsinn Blær og nemendur í Smárahverfi í Vináttug…
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, vináttubangsinn Blær og nemendur í Smárahverfi í Vináttugöngu á baráttudegi gegn einelti.

Leikskólar, grunnskólar og félagsmiðstöðvar í Kópavogi tóku þátt í Vináttugöngu í tilefni af baráttudegi gegn einelti, 8. nóvember. Alls tóku um átta þúsund nemendur og starfsfólk þátt í göngunni sem er nú haldin í fimmta sinn í Kópvogi. Dagskráin fór fram í öllum skólahverfum bæjarins og tókst vel til.

Í tilefni dagsins var kynnt að Vináttuverkefni Barnaheilla væri hafið á yngsta stigi í grunnskólum bæjarins en allir leikskólar í Kópavogi hafa tekið þátt í verkefninu undanfarin ár. Vináttubangsinn Blær, tákn verkefnisins, kom í heimsókn í íþróttahúsið Fífuna þar sem börn úr Smárahverfi söfnuðust saman. Börnin í Smárahverfi sungu og dönsuðu með Blæ og að lokum var hópknús með bangsanum.  Bæjarstjóri Kópavogs, Ármann Kr. Ólafsson, hitti Blæ og börnin í Smárahverfi í Fífunni og fór vel á með þeim.

Markmið Vináttugöngunnar er að stuðla að jákvæðum samskiptum, vekja athygli á mikilvægi vináttu og virðingar og benda á að einelti er ofbeldi sem ekki verður liðið. Gangan eflir samstöðu og vináttu barna og hefur þannig haft jákvæð áhrif á skólastarf í bænum. Með göngunni  leggur Kópavogsbær sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn einelti.