Vinnuskólinn kominn á fullt

Flokkstjórar í Vinnuskólanum fengu námskeið og fræðslu áður en Vinnuskólinn hófst.
Flokkstjórar í Vinnuskólanum fengu námskeið og fræðslu áður en Vinnuskólinn hófst.

Vinnuskólinn í Kópavogi er hafinn þetta sumarið. Í ár eru um 1.300 nemendur skráðir til leiks sem er svipaður fjöldi og sumarið í fyrra. Helstu verkefni Vinnuskólans eru eins og áður að halda bæjarlandinu hreinu þannig að íbúar og gestir geti notið útiveru í Kópavogi í sumar.

Fjöldi nemenda Vinnuskólans starfar einnig við önnur störf og má þar nefna störf hjá öllum íþróttafélögum bæjarins, á leikskólum og ýmsum aðilum sem hafa tekið vel á móti nemendum Vinnuskólans. Um 300 fá tækifæri til að öðlast reynslu af starfi með þessum hætti.

Flokkstjórar Vinnuskólans eru 40 að þessu sinni og hafa notað síðustu tvær vikur til að undirbúa sig sem best fyrir móttöku nemenda. Hafa þeir setið námskeið í leiðtogafærni auk námskeiða um notkun verkfæra og skyndhjálp.

Nemendur Vinnuskólans gera einnig annað en hin hefðbundnu skólastörf þar sem m.a. jafningjafræðarar Hins hússins koma í heimsókn, skógræktarfræðsla og fræðsla verður um flokkun sorps svo fátt eitt sé nefnt.