Kópavogsbúar létu rigningu ekki á sig fá og fjölmenntu á glæsileg hátíðarhöld í tilefni 17.júní.
Haldið var upp á þjóðhátíðardaginn með skrúðgöngu og skemmtiatriðum á tveimur hátíðarsvæðum, við Rútstún og Versali.
Venju samkvæmt leiddu skátarnir og Skólahljómsveit Kópavogs skrúðgönguna sem hófst við MK og lauk á Rútstúni. Fjallkona Kópavogs var í ár Agla María Albertsdóttir, fyrirliði Breiðabliks, og steig hún á svið á Rútstúni. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs ávarpaði gesti á Rútstúni og Versölum en á báðum stöðum voru Bríet og Aron Can á meðal þeirra sem skemmtu. Kynnar voru Gunni og Felix á Rútstúni en Saga Garðarsdóttir og Snorri Helgason við Versali.
Þá var einnig boðið upp á skemmtun á útisvæði við Menningarhús bæjarins, þar settu Skapandi sumarstörf svip sinn á svæðið en sirkus og BMK brós voru á meðal þeirra sem tróðu upp.