Ársreikningur Kópavogs 2018

Kópavogsbær
Kópavogsbær

Rekstrarafgangur Kópavogsbæjar nam 1,3 milljörðum króna árið 2018 en gert hafði verið ráð fyrir 798 milljónum í fjárhagsáætlun með viðauka. Skuldahlutfall bæjarins var 108% í árslok 2018 og lækkar úr 133% frá árslokum 2017. Ársreikningurinn sýnir sterka stöðu Kópavogsbæjar.

„Afkoma bæjarins er helmingi betri en við höfðum reiknað með sem sýnir enn og aftur hversu sterkur rekstur bæjarins er. Þessi niðurstaða er einkar ánægjuleg í ljósi þess að við lækkuðum fasteignaskatta- og gjöld á íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Við erum líka með útsvar undir lögbundnu hámarki og höfum ekki hækkað gjaldskrár í samræmi við kostnaðarhækkanir. Í Kópavogi hafa verið ýmis konar umsvifamiklar framkvæmdir en við höfum ekki tekið nein lán fyrir þeim framkvæmdum. Það eru hins vegar blikur á lofti og engin vafi á því að rekstur sveitarfélaga verður erfiðari í ár en í fyrra. Fall Wow Air og annar fyrirséður samdráttur í ferðaþjónustu hefur áhrif bæði á skatttekjur og velferðarútgjöld. Því er mikilvægt að sýna skynsemi og aðhald í rekstri,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

Fjárfestingar

Fjárfest var fyrir 3,6 milljarða í eigum bæjarins. Stærsta einstaka framkvæmdin var bygging nýs íþróttahúss við Vatnsendaskóla sem nýtist skólanum og íþróttafélaginu Gerplu en 373 milljónir fóru í húsið 2018 sem kostaði um 1,1 milljarð í heildina. Þá voru mikil umsvif við Kársnesskóla. Keyptar voru sjö skólastofur sem settar voru við skólann í Vallargerði og gengið frá lóðinni þar. Niðurrif á húsnæði skólans við Skólagerði hófst en framkvæmdir við nýtt skólahús þar hefjast sumarið 2019. Alls fóru 460 milljónir í framkvæmdir við Kársnesskóla. Bygging húsnæðis fyrir Skólahljómsveit Kópavogs hófst en 111 milljónir fóru í nýtt húsnæði árið 2018 sem áætlað er að verði vígt í árslok 2019. Grunn- og leikskólalóðir voru endurnýjaður fyrir 160 milljónir en skólabyggingar, fyrir utan Kársnesskóla fyrir um 330 milljónir.

Miklar framkvæmdir voru í íþróttamannvirkjum Kópavogsbæjar og nam fjárfestingin um 305 milljónum króna. Gervigras í Kórnum var endurnýjað og unnið að endurbótum á útivelli við Kórinn. Gervigras í Fagralundi var endurnýjað. Þá hófust framkvæmdir við endurnýjun Kópavogsvallar.

Fjárfest var í gatnaframkvæmdum fyrir um 1,3 milljarða króna.

Helstu gatnaframkvæmdir voru á þéttingarsvæðum bæjarins í Glaðheimum, 201 Smára, Auðbrekku og á Kársnesi. Lokið var við að hlaða grjótgarð meðfram allri Kársnestánni og loka þar með landfyllingu á Kársnesi. Þá var Nónhæðin gerð byggingarhæf.

Í Menningarhúsum bæjarins voru helstu framkvæmdir endurnýjun á ljósabúnaði Salarins og breytingar á skipulagi Bókasafns Kópavogs en þar var innréttuð unglingadeild.

Þá voru eignir bæjarins í Fannborg 2, 4 og 6 seldar fyrir rúman milljarð króna.

Niðurgreiðsla skulda

Vaxtaberandi skuldir í ársreikningi 2018 voru 30,8 milljarðar.

Skuldahlutfall samstæðu er sem fyrr segir 108% en var 133% í árslok 2017 Það var hæst 242% árið 2010. Ekki voru tekin ný lán á árinu 2018 fyrir framkvæmdum og alls greiddir 3,2 milljarðar í afborganir lána.

Tekjur

Tekjur sveitarfélagsins námu rúmlega 32,1 milljörðum en gert hafði veið ráð fyrir 30,8 milljörðum í tekjum fyrir A- og B-hluta. Eigið fé samstæðunnar nam í árslok 27,3 milljörðum en eigið fé A-hluta nam tæplega 18.5 milljörðum.

Veltufé frá rekstri var 3,5 milljarðar króna en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 4 milljörðum. Veltufé frá rekstri sýnir hvað rekstur gefur af sér til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána.

Rekstrarniðurstaða A-hlutans var jákvæð um 1,2 milljarða króna en gert hafði verið ráð fyrir 459 milljóna afgangi í viðaukaáætlun.

Laun og tengd gjöld

Laun og launatengd gjöld voru alls 16,4 milljarðar króna sem eru um 100 milljónum yfir því sem áætlað var.

Heildarfjöldi starfsmanna hjá sveitarfélaginu í árslok 2017 voru 2.515 en meðalfjöldi stöðugilda 1.944.

Íbúar Kópavogsbæjar þann 1. september 2018 voru 36.320 og fjölgaði þeim um 1.028 frá fyrra ári eða um 2,9%.

Ársreikningur Kópavogsbæjar verður lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn þriðjudaginn 23. apríl.