Dagar ljóðsins

Dagur Hjartarson og Ásta Fanney Sigurðardóttir handhafar Ljóðstafs Jóns úr Vör 2016 og 2017.
Dagur Hjartarson og Ásta Fanney Sigurðardóttir handhafar Ljóðstafs Jóns úr Vör 2016 og 2017.

Dagar ljóðsins í Kópavogi standa yfir frá 13. til 21. janúar:

Dagskrá:

Ljóðasmiðja, opinn hljóðnemi, Nýlókórinn, listsýning og Björt í sumarhúsum
Hátíðarvika ljóðsins hefst í Kópavogi laugardaginn 13. janúar, en hápunktur hennar er afhending Ljóðstafs Jóns úr Vör, sem jafnan er beðið með mikilli eftirvæntingu. Afhendingin fer fram í Salnum sunnudaginn 21. janúar kl. 16, en við sama tilefni verða kynnt úrslit í ljóðasamkeppni grunnskólanna í Kópavogi. Alls bárust 278 ljóð í keppnina um Ljóðstafinn og hefur dómnefnd valið þrjú verðlaunaljóð og tíu ljóð sem hljóta viðurkenningu. Viðburðir vikunnar í Menningrhúsum Kópavogs eru ókeypis og öllum opnir.

Laugardagur 13. janúar kl. 13
Ljóðasmiðja í léttum dúr verður í Bókasafni Kópavogs 13. janúar kl. 13, en þar býður Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson 8-12 ára börnum að nálgast ljóðið í formi skemmtilegra leikja og æfinga.

Miðvikudagur 17. janúar kl. 12:15
Orð og draumar er yfirskrift dagskrár þar sem Þórarinn Eldjárn les úr eigin ljóðum og ljóðum skáldabróður síns Sigurðar Pálssonar og segir sögur af vináttu þeirra og skáldskapnum. Dagskrá Þórarins verður í Bókasafninu miðvikudaginn 17. janúar kl. 12:15.

Fimmtudagur 18. janúar kl. 20
Orðið er frjálst fyrir ljóðaflutning og Nýlókórinn treður upp á ljóðakvöldi, sem haldið er í samvinnu við Blekfjelagið, félag ritlistarnema við Háskóla Íslands, í Garðskálanum, Gerðarsafni, fimmtudagskvöldið 18. janúar kl. 20. Kórinn flytur ljóð eftir Kára Tulinius en sýning hans á myndljóðum og ljósmyndaljóðum stendur yfir á Bókasafninu til 31. janúar.

Laugardagur 20. janúar kl. 13
Hin ærslafulli söngleikur Björt í sumarhúsi byggir á ljóðum Þórarins Eldjárns úr bókinni Gælur, fælur og þvælur og verður sýndur í Salnum laugardaginn 20. janúar kl. 13. Tónlistina semur Elín Gunnlaugsdóttir en flytjendur eru Valgerður Guðnadóttir og Hrönn Þráinsdóttir.

Sunnudagur 21. janúar kl. 16
Ljóðstafur Jóns úr Vör verður afhentur við hátíðlega athöfn á vegum Lista- og menningarráðs Kópavogs. Úrslit í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs verða einnig kynnt. Hanna Dóra Sturludóttir og Snorri Sigfús Birgisson flytja lög og ljóð Jóns við athöfnina.

Stuttmynd um Jón úr Vör

Meðan á hátíðinni stendur verður sýnd í bókasafninu stutt heimildarmynd eftir Martein Sigurgeirsson um skáldið Jón úr Vör og rithöfundar og fræðimenn minnast Jóns. Þá verður vinningsljóðunum grunnskólanema dreift um bæinn á veggspjöldum og bókamerkjum.

Jón úr Vör

Jón úr Vör fæddist á Vatneyri við Patreksfjörð 21. janúar 1917 en starfaði lengst af í Kópavogi þar sem hann var hvatamaður að stofnun bókasafnsins og síðar fyrsti bæjarbókavörður bæjarfélagsins. Jón starfaði að menningarmálum með ýmsum hætti, var til dæmis bæði bóksali og ritstjóri, en fyrst og fremst var hann brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð. Fjölmargar ljóðabækur hans lifa með þjóðinni og ber þá helst að nefna óð hans til æskustöðvanna, ljóðabálkinn Þorpið. Jón úr Vör lést 4. mars árið 2000 og frá árinu 2002 hefur Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar afhent Ljóðstaf Jóns úr Vör á fæðingardegi skáldsins.

Handhafar Ljóðstafsins

Ásta Fanney Sigurðardóttir, Dagur Hjartarson, Anton Helgi Jónsson, Magnús Sigurðsson, Hallfríður J. Ragnheiðardóttir, Steinunn Helgadóttir, Gerður Kristný, Anton Helgi Jónsson, Jónína Leósdóttir, Guðrún Hannesdóttir, Óskar Árni Óskarsson, Linda Vilhjálmsdóttir,  Hjörtur Marteinsson og Hjörtur Pálsson.