Dagar ljóðsins í Kópavogi

Andlit Jóns úr Vör prýðir húsgafl í Auðbrekku í Kópavogi.
Andlit Jóns úr Vör prýðir húsgafl í Auðbrekku í Kópavogi.

Ljóðahátíð menningarhúsa Kópavogs hefst 16. janúar með ljóðasmiðju fyrir börn á aldrinum 9 til 12 ára í Bókasafni Kópavogs. Hápunktur hátíðarinnar fer fram í Salnum 21. janúar, á fæðingardegi Kópavogsskáldsins Jóns úr Vör, en þá verða kynnt úrslit í ljóðasamkeppni Ljóðstafs Jóns úr Vör og Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs. Verðlaunaafhendingin hefst kl. 17:00 og eru allir velkomnir. Ýmsar uppákomur verða í Bókasafni Kópavogs á hátíðinni, settur verður upp ljóðaveggur og flutt fræðsluerindi, ljóðum verður einnig dreift í öðrum menningarhúsunum og á strætóleiðum í Kópavogi verða birt verðlaunaljóð grunnskólabarna Kópavogs.
Hátíðinni lýkur laugardaginn 23. janúar með annarri ljóðasmiðju í Bókasafni Kópavogs fyrir börn á aldrinum 5 til 8 ára. Ljóðasamiðjurnar í bókasafninu eru jafnframt hluti af fjölskyldustundum menningarhúsa bæjarins sem fram fara á hverjum laugardegi fram á sumar.

Tilgangur ljóðahátíðarinnar er að efla og vekja áhuga á íslenskri ljóðlist. Ljóðasamkeppni Ljóðstafs Jóns úr Vör er nú haldin í fimmtánda sinn en um það bil 300 ljóð bárust í keppnina að þessu sinni. Í dómnefnd eru Anton Helgi Jónsson skáld, Ásdís Óladóttir skáld og Bjarni Bjarnason rithöfundur.

Valin verða tíu verðlaunaljóð og þar af þrjú sem raðast í efstu sætin. Vegleg verðlaun eru veitt, eða samtals ein milljón kr, sem skiptist á milli höfunda þriggja efstu ljóðanna.

Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs er nú haldin í fimmta sinn og velur dómnefndin 13 verðlaunaljóð og þar með þrjú sem raðast í efstu sætin. Höfundur vinningsljóðsins hlýtur peningaverðlaun upp á 50 þúsund kr. en efstu ljóðin munu einnig verða prentuð út og hengd upp í strætóleiðum Kópavogsbæjar.

Ljóðasmiðjurnar í Bókasafni Kópavogs sem fara fram laugardaginn 16. janúar og laugardaginn 23. janúar eru leiddar af Hörpu Arnardóttur en þar mun hún samtvinna leik- og skáldskaparlist. Mikilvægt er að skrá börn á ljóðasmiðjurnar á vef Bókasafns Kópavogs.

Dagskrá:


Laugardagurinn 16. janúar kl. 13: Ljóðið lifnar við: Leik- og skáldskaparsmiðja fyrir 5-8 ára í umsjón Hörpu Arnardóttur á Bókasafni Kópavogs

Miðvikudagurinn 21. janúar kl. 17:15: Bjarki Karlsson, hagyrðingur og skáld, kafar í ljóðageymslur Bókasafnsins og talar um hefðbundinn og óhefðbundinn kveðskap

Fimmtudagurinn 21. janúar kl. 17: Ljóðstafur Jóns úr Vör afhentur í Salnum um leið og úrslit ljóðasamkeppni Grunnskólanna eru tilkynnt.

Laugardagurinn 23. janúar kl. 13: Ljóðið lifnar við Leik- og skáldskaparsmiðja fyrir 9-12 ára í umsjón Hörpu Arnardóttur á Bókasafni Kópavogs

Segulmagnaður ljóðaveggur verður á þriðju hæð hússins alla hátíðina þar sem börn og fullorðnir geta endurraðað ljóðum þekktra skálda.

Alla daga hátíðarinnar verður svo hægt að fá óvænta ljóðabók að láni frá bókasafninu – bæði fyrir börn og fullorðna. Grípið innpakkaða bók og njótið þess svo að eiga blint ljóðastefnumót við heimkomu.

Við bjóðum svo hverjum sem vill að kveðast á við okkur þegar við hendum fram ferskeytlu-fyrriparti á samfélagsmiðlum. Vegleg verðlaun í boði!