Dagur Hjartarson fær Ljóðstaf Jóns úr Vör

Karen E. Halldórsdóttir formaður lista- og menningarráðs, Dagur Hjartarson handhafi Ljóðstafs Jóns …
Karen E. Halldórsdóttir formaður lista- og menningarráðs, Dagur Hjartarson handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör 2016, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogsbæjar og Anton Helgi Jónsson skáld og formaður dómnefndar.

Dagur Hjartarson skáld hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör í ár fyrir ljóð sitt Haustlægð. Úrslitin í ljóðasamkeppninni voru kynnt við hátíðlega athöfn í Salnum 21. janúar, á fæðingardegi Jóns úr Vör. Um 300 ljóð bárust í ljóðasamkeppnina sem var nú haldin í fimmtánda sinn.  Í dómnefnd voru Anton Helgi Jónsson skáld, Ásdís Óladóttir skáld og Bjarni Bjarnason rithöfundur.

Í Salnum voru einnig kynnt úrslit í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs. Þær Martyna Joanna Szopa og Oliwia Lenska sem eru 12 og 13 ára nemendur úr Álfhólsskóla hrepptu þar efsta sætið með ljóð sitt Ég sit á göngustígnum. Þær eru báðar pólskar og hafa búið á Íslandi í 5 og 8 ár með mæðrum sínum.

Í öðru sæti í ljóðasamkeppni Kópavogs var Hrafnhildur Þórhallsdóttir með ljóð sitt Þrá og í þriðja sæti var Sigurlín Bjarney Gísladóttir með ljóð sitt Arfur.

Verðlaunfé fyrir Ljóðstafinn var að þessu sinni tvöfaldað, þar sem enginn hlaut Ljóðstafinn í fyrra og nemur einni milljón króna sem skiptist þannig að 600.000 kr. voru veittar fyrir fyrsta sætið, 300.000 kr. fyrir annað sæti og 100.000 kr. fyrir þriðja sætið.

Úr rökstuðningi dómnefndar um Haustlægð:

Þetta er ljóð sem dregur upp nýstárlega mynd af alkunnu og einkar óskáldlegu veðurfyrirbæri, haustlægð. Ljóðið hefst með lýsingu á því hvernig getur verið umhorfs í görðum og úti við strönd dagana eftir fyrstu næturheimsóknir haustlægðarinnar. Flest er kunnuglegt í byrjun en þegar líður á ljóðið virðist haustlægðin vera annað og meira en auðskiljanlegt veðurfyrirbæri. Hún kann að vitna um einhverja togstreitu manns og náttúru en um leið er hún kannski af öðrum heimi og ef til vill tengist hún undirdjúpum sálarlífsins. Það er bæði ógn og eftirvænting í loftinu. Enginn veit hvað þessi haustlægð færir með sér. Í ljóðinu birtast okkur áleitnar myndir sem vekja spurningar um líf og dauða en veita engin einföld svör.

Elís Þór Traustason úr Lindaskóla var í öðru sæti í ljóðasamkeppni grunnskólanna en þriðja sæti kom í hlut Sonju Marie Rebekkudóttir, Hörðuvallarskóla.

Ljóðahátíð í Kópavogi stendur yfir og heldur áfram næstu daga. Má nefna að í Bókasafni Kópavogs er hægt að fá ljóðabækur í gjafapappír og á laugardag verður ljóðasmiðja fyrir börn og ungmenni. Verðlaunaljóðum verður dreift í strætó en einnig má finna þau á bókamerkjum Bókasafns Kópavogs.

Auk verðlaunahafa fengu þessir viðurkenningu fyrir ljóð:

Arndís Þórarinsdóttir

Dagur Hjartarson

Jón Örn Loðmfjörð

Jónas Reynir Gunnarsson

Kári Tulinius

Kristinn Árnason

Soffía Bjarnadóttir

Viðurkenningu fyrir ljóð í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs hlutu:

Brynhildur Erla Finnbjörnsdóttir, Salaskóla

Erla Sóley Skúladóttir, Hörðuvallaskóla

Eva Ósk Lárusdóttir, Salaskóla

Karen Lóa Júlíusdóttir, Salaskóla

Rúnar Ingi Eysteinsson, Hörðuvallaskóla

Sandra Diljá Kristinsdóttir, Salaskóla

Sóley Erla Jónsdóttir, Álfhólsskóla

Steinunn Björg Böðvarsdóttir, Lindaskóla

Þorvaldur Tumi Baldursson, Álfhólsskóla

Viktor Gunnarsson, Salaskóla