Þrettán luku leikskólakennaranámi með vinnu

Leikskóladeild fagnaði með nýútskrifuðu leikskólakennurunum og þeirra leikskólastjórnendum á dögunu…
Leikskóladeild fagnaði með nýútskrifuðu leikskólakennurunum og þeirra leikskólastjórnendum á dögunum og á myndinni má sjá glæsilegan hóp nýútskrifaðra ásamt starfsfólki leikskóladeildar og Sigrúnu Huldu Jónsdóttir, deildarstjóra leikskóladeildar, sem færði nýútskrifuðum leikskólakennurum gjöf.

Í vor útskrifuðust þrettán leikskólakennarar frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri sem starfa í Kópavogi. Allir leikskólakennararnir hafa stundað nám í leikskólakennarafræðum samhliða vinnu hjá Kópavogsbæ og hafa flestir þeirra fengið námsstyrki. Hjá Kópavogsbæ er hæsta hlutfall fagmenntaðra í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu, eða 36%.

Góður árangur hefur verið af stefnu Kópavogsbæjar um námsstyrki og hefur hlutfall leikskólakennara aukist til muna. Frá árinu 2014 hafa á annað hundrað lokið námi með námsstyrkjum frá Kópavogsbæ og hafið störf í leikskólum bæjarins. Einnig má þess geta að Kópavogsbær styrkir leiðbeinendur til þess að sækja sér menntun leikskólaliða, sem er starfstengt nám á framhaldsskólastigi.

Kópavogsbær státar nú af því að 36% starfsmanna eru leikskólakennaramenntaðir, sem er hæsta faghlutfall í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Að auki hafa um 16% starfsmanna aðra háskólamenntun sem nýtist vel í starfi með börnum. Þar má nefna t.d. ýmsa listtengda menntun, íþróttafræði, sálfræði og uppeldis – og menntunarfræði sem auðgar mjög starfið í leikskólunum.

Þess má geta að næsta vetur verða tæplega fimmtíu nemendur úr Kópavogi í kennaranámi við HÍ, HA og LHÍ sem er mikið fagnaðarefni og mikilvægt fyrir leikskólastarf Kópavogsbæjar.

Til hamingju kæru leikskólakennarar :)

Nánar um námsstyrki starfsfólks leikskóla hjá Kópavogsbæ

Eftir þriggja mánaða starf í leikskóla er unnt að óska eftir stuðningi leikskólastjóra til að sækja um nám í leikskólakennarafræðum. Sótt er um grunnnám í leikskólakennarafræði eða meistaragráðu ofan á aðra háskólagráðu. Styrkurinn felst í því að starfsfólk getur verið fjarri vinnu vegna skólasóknar eða vettvangsnáms í allt að 35 daga á skólaárinu, skólagjöld eru greidd og veittur er námsgagnastyrkur. Einnig er styrkt nám leiðskólaliða, með greiðslu skólagjalda og námsgagna auk veglegrar eingreiðslu til hvatningar við lok náms ásamt því að veita svigrúm á vinnutíma vegna vettvangsnáms.