Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar var lögð fram 11.nóvember til fyrri umræðu.
Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2026 var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag, þriðjudaginn 11. nóvember.
Lykilatriði
- Gert er ráð fyrir 290 milljón króna jákvæðri niðurstöðu A- og B-hluta
- Ekki er gert ráð fyrir sölu byggingarréttar í áætlun bæjarins
- Veltufé frá rekstri er fimm milljarða króna
- Fasteignaskattar lækka áfram
- Fasteignagjöld heimila eru með þeim lægstu á landsvísu
- Heildarskuldir lækka að raunvirði
- Skuldaviðmið lækkar og verður 79%
- Fjárfest í leik- og grunnskólum samfara vaxandi bæjarfélagi
- Fjármunum forgangsraðað í þágu barnafjölskyldna og eldri bæjarbúa
- Frístundastyrkur barna og ungmenna hækkar í 70.000 krónur
- Verkefnið „Virkni og vellíðan“ fyrir eldri íbúa eflt enn frekar
„Áætlun Kópavogsbæjar endurspeglar áherslur okkar sem byggir á því að bæta lífsgæði íbúa þar sem skattar eru lækkaðir og grunnþjónusta sett í forgang gagnvart barnafjölskyldum og eldri íbúum. Rekstur Kópavogsbæjar felur í sér ábyrgan rekstur þar sem heildarskuldir lækka að raunvirði, skuldahlutföll eru lág og fjárfest er í innviðum fyrir framtíð bæjarins. Áfram er áhersla lögð á að lækka fasteignaskatta á heimilin en fasteignagjöld í Kópavogi eru ein þau lægstu á höfuðborgarsvæðinu og meðal stærstu sveitarfélaga landsins. Til að standa vörð um ábyrgan rekstur verður áfram aðhalds gætt í rekstri og hagrætt fyrir viðbótarútgjöldum sem ekki teljast til grunnþjónustu. Kópavogsbær er ört stækkandi bæjarfélag og áframhaldandi uppbygging fram undan til að mæta þörfum okkar íbúa. Markviss skref verða stigin á árinu 2026 til að bæta þjónustu við íbúa með stafrænum lausnum. Áætlun okkar fyrir árið 2026 er í senn varfærin og ábyrg,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.
Jákvæður rekstur í traustu umhverfi
Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar verði jákvæð sem nemur 290 milljónum og að niðurstaða A-hluta verði jákvæð um 128 milljónir. Ekki er gert ráð fyrir sölu byggingarréttar í fjárhagsáætlun þó áform séu um að lóðum verði úthlutað í Glaðheimum og víðar með tilheyrandi tekjum.
Veltufé frá rekstri er áætlað tæpir fimm milljarðar króna á samstæðu bæjarins sem endurspeglar það svigrúm sem reksturinn er að gefa til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána.
Skuldir eru hóflegar þrátt fyrir miklar framkvæmdir og skuldaviðmið 79% samkvæmt áætlun, sem er langt undir lögbundnu viðmiði. Heildarskuldir lækka að raunvirði.
Fjárhagsáætlun sýnir að fjárhagur bæjarins er mjög traustur. Áfram verður áhersla á að skapa rými til þess að forgangsraða í þágu grunnþjónustu í mennta- og velferðarmálum.
Íbúar Kópavogs verða 41.200 í árslok árinu 2026 og fjölgar um tæp 2%.
Fasteignaskattar með þeim lægstu á landinu
Þjóðhagspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir að verðbólgan lækki og verði um 3,2% á árinu.
Á árinu 2026 verða álagningarhlutföll fasteignaskatta lækkuð sem fyrr og er það framhald af skattalækkunarferli sem hófst 2013. Á þetta bæði við um íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Í Kópavogi eru fasteignaskattar á heimili með þeim lægstu á landsvísu og fasteignagjöld hafa ekki hækkað að raunvirði undanfarin ár. Útsvarsprósentan helst óbreytt.
Eldri borgurum og örorkulífeyrisþegum er veittur afsláttur af fasteignasköttum í hlutfalli við tekjur líkt og undanfarin ár.
Gjaldskrár taka mið af uppreiknaðri vísitölu samkvæmt vísitölum Hagstofu Íslands í hlutfalli við vægi einstakra kostnaðarliða í rekstri. Þær eru endurskoðaðar að jafnaði tvisvar til fjórum sinnum á ári en þetta fyrirkomulag var tekið upp árið 2023.
Velferð og menntun í barnvænu sveitarfélagi
Á árinu 2026 verður rík áhersla á málefni leik- og grunnskóla og á að halda úti góðri velferðarþjónustu. Kópavogur er barnvænt sveitarfélag og verkefni sveitarfélagsins taka mið af því. Kópavogsbær kynnti í haust sextán aðgerðir til umbóta í grunnskólum bæjarins og verður markvisst unnið áfram að útfærslum sem tengjast þeim. Meðal aðgerða er innleiðing læsisáætlunar og er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun næsta árs að bókasöfn verða efld með fjölgun stöðugilda og auknu fjármagni til bókakaupa.
Lögð verður áhersla á að samstarf í kringum börn og fjölskyldur sé í skýrum farvegi og að barnið sé hjartað í kerfinu með áframhaldandi þátttöku í innleiðingu farsældarlaga.
Frístundastyrkur barna og ungmenna hækkar úr 64 þúsund krónur í 70 þúsund krónur.
Áfram mun Kópavogsbær bjóða uppá heimgreiðslur til foreldra sem hækka í 115.810 krónur og styrkur til dagforeldra hækkar einnig.
Boðið verður upp á helgaropnun í félagsmiðstöðvum eldra fólks með það að markmiði að draga úr einmanaleika og einangrun en góð reynsla hefur verið á tilraunaverkefni um helgaropnun.
Opnunartími félagsmiðstöðva barna í 5. til 7. bekk verður lengdur og sama á við um félagsmiðstöðvar á unglingastigi. Þetta er í samræmi við tillögur barnaþingmanna og ungmennaráðs.
Hafist verður handa við undirbúning að stofnun sameiginlegs vistheimilis Barnaverndar í samstarfi við Hafnarfjörð.
Nýir leik- og grunnskólar í byggingu
Umfangsmiklar framkvæmdir á vegum bæjarins eru áætlaðar á næsta ári og áfram tryggt að innviðir mæti þörfum bæjarbúa og viðhaldi eigna sé vel sinnt.
Framkvæmdir á nýbyggingu leikskóla við Skólatröð standa yfir og eru áætluð verklok vorið 2026. Á næstu þremur árum er áætlað að verja um tveimur milljörðum króna í nýbyggingu leikskóla og endurnýjun leikskólalóða. Undirbúningur á nýjum leikskóla við Naustavör og leik- og grunnskóla í nýju hverfi við Vatnsendahvarf hefur staðið yfir og hefjast framkvæmdir á næsta ári. Þá verða grunnskólalóðir endurnýjaðar samkvæmt áætlun.
Þá hefjast umfangsmiklar framkvæmdir við aðalvöll HK og nýja stúku.
Um 1,4 milljörðum króna verður varið í gatnagerð, veitur og skipulagsmál á næsta ári. Hafin verður skipulagsvinna í Vatnsvík og Vatnsendahlíð á árinu. Samhliða fjölgun íbúða í sveitafélaginu verður umtalsverðum fjármunum varið í gatnagerð í nýjum og eldri hverfum bæjarins.
Umbætur og þróun í stjórnsýslu, miðlun og menningu
Unnið er að umbótum sem hafa það meginmarkmið að bæta stjórnsýslu og þjónustu bæjarins við íbúa með áherslu á stafræna þróun, skilvirka miðlun og öflugt menningarstarf. Þá verður gervigreind hagnýtt til þess að efla þjónustu og auka skilvirkni.
Fjölmenningarlegir viðburðir verða áfram efldir í menningarhúsunum sem og viðburðir fyrir eldri borgara auk áframhaldandi vinnu við þróun Náttúrustofu. Á nýju ári er farið í markaðssókn í Salnum með áherslu á ráðstefnuhald sem skerðir ekki kjarnastarfsemi Salarins í tónleikahaldi.
Með fjárhagsáætlun 2026 er einnig lögð fram þriggja ára áætlun áranna 2027, 2028 og 2029 til fyrri umræðu.
Fjárhagsáætlun 2026
Þriggja ára áætlun 2027, 2028, 2029.
Kynning bæjarstjóra