Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar samþykkt

Fjárhagsáætlun 2023 var samþykkt 22. nóvember.
Fjárhagsáætlun 2023 var samþykkt 22. nóvember.

Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2023 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs við seinni umræðu þriðjudaginn 22.nóvember. Einnig var samþykkt þriggja ára áætlun 2024-2026.

Áætlunin tók óverulegum breytingum milli umræðna en þó gert ráð fyrir betri afkomu en við fyrri umræðu, 87 í stað 83 milljóna.

Gjaldskrár voru samþykktar við seinni umræðu og hækka þær um 7,7%.

„Áætlun ársins 2023 endurspeglar að mínu mati ábyrgan rekstur og rétta forgangsröðun. Grunnþjónusta við bæjarbúa verður efld og við forgangsröðum fjármunum í skóla- og velferðamál. Álögur lækka og gjöldum er stillt í hóf því almennt munu gjaldskrár ekki fylgja þeim kostnaðarhækkunum sem liggja fyrir. Með þessu er Kópavogur, næst stærsta sveitarfélag landsins, að leggja sitt af mörkum við að ná verðbólgu niður og liðka fyrir gerð kjarasamninga,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.

Í fjárhagsáætlun kemur fram að umfangsmiklar fjárfestingar eru á vegum bæjarins á næsta ári, til að mynda í skólum, leikskólum og íþróttamannvirkjum. Einnig verður fjármunum varið í markvisst viðhald fasteigna og loftgæði verða bætt í stofnunum bæjarins.

Fjárhagsáætlun var samþykkti með atkvæðum meirihluta bæjarstjórnar en fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

Nánar um áætlunina

Kynning bæjarstjóra

Fjárhagsáætlun 2023 og þriggja ára áætlun 2024-2025