Fjárhagsáætlun var samþykkt þriðjudaginn 25.nóvember.
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs að lokinni seinni umræðu, þriðjudaginn 25.nóvember. Einnig var samþykkt þriggja ára áætlun fyrir tímabilið 2027-2029.
Óverulegar breytingar urðu á fjárhagsáætluninni milli umræðna en einstaka gjaldliðir ýmist hækkuðu eða lækkuðu. Heildar áhrif breytinga á rekstur milli umræðna urðu til þess að heildar tekjur hækka um 152,6 milljónir króna og heildargjöld um 99,3 milljónir króna. Nettó batnar afkoman um 53,3 milljónir og rekstrarniðurstaða samstæðunnar er því 343 milljónir samkvæmt áætluninni. Í áætlum Kópavogsbæjar er ekki gert ráð fyrir tekjum vegna úthlutunar lóða.
„Áætlun Kópavogsbæjar endurspeglar áherslur okkar sem byggir á því að bæta lífsgæði íbúa þar sem skattar eru lækkaðir og grunnþjónusta sett í forgang. Áfram er áhersla lögð á að lækka fasteignaskatta á heimilin en fasteignagjöld í Kópavogi eru ein þau lægstu á höfuðborgarsvæðinu og meðal stærstu sveitarfélaga landsins. Til að standa vörð um ábyrgan rekstur verður áfram aðhalds gætt í rekstri og hagrætt fyrir viðbótarútgjöldum sem ekki teljast til grunnþjónustu.” segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri.
Ítarleg frétt um fjárhagsáætlun 2026