20 ára afmæli forvarnardagsins

Forvarnardagurinn er 1. október.
Forvarnardagurinn er 1. október.

Miðvikudaginn 1. október 2025 verður Forvarnardagurinn haldinn hátíðlegur í tuttugasta sinn í grunnskólum landsins og í fimmtánda sinn í framhaldsskólum. Markmið dagsins er að vekja athygli á mikilvægum þáttum í forvarnarstarfi sem snúa að ungu fólki og fræða þau um hvernig þau geti hugað að eigin vellíðan og heilsu.

Forvarnardagurinn er að frumkvæði forseta Íslands og er skipulagður í samstarfi við marga lykilaðila, þar á meðal Embætti landlæknis, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Samfés, Heimili og skóla, Ungmennafélag Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Skátana, Rannsóknir og greiningu, Planet Youth, SAFF og Embætti ríkislögreglustjóra.

Í Kópavogi taka grunnskólar þátt í Forvarnardeginum, nemendur í 9. bekk ræða meðal annars um mikilvægi þess að verja tíma með fjölskyldu, skipulagt íþrótta-, frístunda- og tómstundastarf og um það hvernig þessir verndandi þættir hafa jákvæð áhrif á líðan þeirra og framtíð.

„Forvarnir eru viðvarandi verkefni sem krefjast samvinnu alls samfélagsins, skóla, frístundastarfs, íþróttafélaga, foreldra og stjórnvalda“, segir í yfirlýsingu samstarfsaðila Forvarnardagsins.

Á heimasíðu Forvarnardagsins, www.forvarnardagur.is, er að finna fróðleik og myndbönd um forvarnir ásamt lista yfir grunn- og framhaldsskóla sem taka þátt í verkefninu.

Kópavogsbær hvetur alla sem koma að málefnum barna og ungmenna til að kynna sér efni dagsins og styðja við mikilvægt starf sem hefur á undanförnum tveimur áratugum skilað góðum árangri í forvörnum.