Fræðsla fyrir börn á leikskólaaldri

Guðrún Bjarnadóttir leikskólaráðgjafi og Sigurlaug Bjarnadóttir leikskólafulltrúi hjá menntasviði r…
Guðrún Bjarnadóttir leikskólaráðgjafi og Sigurlaug Bjarnadóttir leikskólafulltrúi hjá menntasviði ræða við foreldra verðandi leikskólabarna.

Foreldrum barna í Kópavogi sem eru að hefja leikskólagöngu í haust var á dögunum boðið til fræðslu um líf og nám ungra barna í leikskóla. Góð mæting var á fundina sem voru fjórir talsins og foreldrar ánægðir með framtakið.

Í vor og haust munu mörg lítil börn, fædd 2015 og fyrri part árs 2016 hefja leikskólagöngu sína í leikskólum Kópavogs. Undanfarið hafa litið dagsins ljós rannsóknir og skrif um líf og þroska yngstu þegnanna sem sýna með óyggjandi hætti að fyrstu árin skipta verulegu máli fyrir velferð þeirra.

Menntasvið Kópavogsbæjar og leikskólar bæjarins hafa tekið höndum saman til þess að þetta mikilvæga tímabil í lífi barna og foreldra þeirra takist sem best. Þetta er í annað sinn sem menntasvið Kópavogsbæjar býður upp á fræðslu um nám ungra barna í leikskóla.