Gerðarverðlaunin veitt í fyrsta sinn

Rósa Gísladóttir með viðurkenningarskjal Gerðarverðlaunanna. Í bakgrunni má sjá verk eftir Ólöfu He…
Rósa Gísladóttir með viðurkenningarskjal Gerðarverðlaunanna. Í bakgrunni má sjá verk eftir Ólöfu Helgu Helgadóttur sem er hluti af Skúlptúr / Skúlptúr sýningarröð Gerðarsafns.

Rósa Gísladóttir er fyrsti handhafi Gerðarverðlaunanna en þau verða veitt árlega framúrskarandi myndlistarmanni sem vinnur í skúlptúr og rýmisverk.

Gerðarsafn stendur að nýjum myndlistarverðlaunum til stuðnings við höggmyndalist hérlendis. Verðlaunin eru til heiðurs Gerði Helgadóttur myndhöggvara og eru veitt árlega framúrskarandi myndlistarmanni sem vinnur í skúlptúr og rýmisverk.

Fyrsti verðlaunahafi Gerðarverðlaunanna er Rósa Gísladóttir fyrir metnaðarfullt og kröftugt framlag til höggmyndalistar. Verk Rósu eru könnun á geometríu og klassískri formgerð með vísunum í arkitektúr og rússneskan konstrúktivisma. Skúlptúrar hennar spila á mörkum þess klassíska og nútímalega jafnframt í fagurfræði og efnisnotkun. Verk í við, gifs, keramik og gler skapa samspil við umhverfi sitt hvort sem það er staðbundið verk í borgarlandslagi eða skúlptúrar sem hverfast um sýningarrými.

Rósa Gísladóttir (f. 1957) nam myndlist í Þýskalandi, Bretlandi og á Íslandi. Verk hennar hafa verið sýnd víða hérlendis og erlendis, þar á meðal í Scandinavia House í New York, Saatchi Gallery í London, Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, Listasafni Árnesinga og Berg Contemporary.

 Gerður Helgadóttir (1928-1975) var fjölhæfur myndlistarmaður sem fékkst við skúlptúr, steint gler og mósaík. Tók hún fyrst íslenskra kvenna forystu í höggmyndalist og var brautryðjandi í þrívíðri abstraktlist hérlendis. Gerðarsafn var stofnað og reist til heiðurs Gerði og er framsækið nútíma- og samtímalistasafn þar sem lögð er áhersla á að efla áhuga, þekkingu og skilning á myndlist. Sköpunarkraftur og tilraunastarfsemi Gerðar er leiðarstefið í sýningargerð, viðburðum og fræðslustarfi Gerðarsafns þar sem verk hennar og arfleifð eru virkjuð í samtali við samtímalist og hugðarefni samtímans.

Lista- og menningarráð Kópavogs samþykkti að stofna til verðlauna í nafni Gerðar Helgadóttur og  nema þau einni milljón króna. Verðlaunin eru nú veitt í fyrsta sinn en stefnt er að því að veita þau árlega.

Dómnefnd Gerðarverðlaunanna skipa: Brynja Sveinsdóttir, forstöðumaður Gerðarsafns, Eggert Pétursson myndlistarmaður, tilnefndur af Gerðarsafni og Svava Björnsdóttir myndlistarmaður, tilnefnd af SÍM.