Kennarar elsta stigs, íþróttakennarar og list- og verkgreinakennarar í Álfhólsskóla - Hjalla á menntadeginum.
Dagana 11.–13. ágúst tóku kennarar í grunnskólum Kópavogs þátt í Í startholunum 2025 – árlegum starfsþróunardögum sem marka upphaf skólaársins. Dagskráin fór fram í Vatnsendaskóla þar sem boðið var upp á fjölbreytt námskeið sem höfðu það að markmiði að efla faglega færni, deila góðum aðferðum og styðja kennara í starfi fyrir komandi starfsár.

Meðal viðfangsefna námskeiðanna voru skriftarkennsla og fjölbreyttar kennsluaðferðir, hagnýt ráð í lestrarkennslu, jákvæð og árangursrík bekkjarstjórnun, notkun gervigreindar og stafrænnar tækni í skólastarfi, kennsluaðferðir til að mæta ólíkum þörfum nemenda, samstarf stoðþjónustu og umsjónarkennara, auk innleiðingar endurskoðaðra greinasviða aðalnámskrár og leiða til að stuðla að inngildingu í skólastarfi.

Að námskeiðunum komu bæði fræðimenn, ráðgjafar og reynslumiklir kennarar sem deildu þekkingu sinni og hagnýtum verkfærum með þátttakendum. Markmiðið var að gefa kennurum innblástur, styrkja faglega hæfni þeirra og undirbúa þá fyrir verkefni komandi skólaárs.

Í kjölfar námskeiðanna var boðið til sameiginlegs menntadags allra kennara í Kópavogi þar sem sjónum var beint að læsi sem grunnþætti alls náms. Dagskráin hófst með fyrirlestrum sem tengjast viðfangsefnum hvers skólastigs og því næst gafst þátttakendum kostur á að velja sér vinnustofur sem tengja læsi við fjölbreytt fagsvið og kennslu. Menntadagurinn var haldinn miðvikudag 13. ágúst og fór fram í þremur skólum. Kennarar yngsta stigs komu saman í Hörðuvallaskóla, kennarar miðstigs í Salaskóla og kennarar elsta stigs, íþróttakennarar og list- og verkgreinakennarar í Álfhólsskóla - Hjalla.