Hjólum rétta leið á sunnudag

Fjölmargir tóku þátt í hjóladeginum sem haldinn var í tilefni samgönguvikunnar árið 2010.
Fjölmargir tóku þátt í hjóladeginum sem haldinn var í tilefni samgönguvikunnar árið 2010.

Kópavogsbúar eru hvattir til að taka þátt í evrópsku samgönguvikunni sem hefst á sunnudag með hjólreiðaför sem endar í Árbæjarsafni. Hjólalest leggur af stað frá Hafnarfirði og Garðabæ og stoppar við Þinghólinn í Kópavogi kl. 12:25. Þar geta Kópavogsbúar bæst í hópinn. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri verður einnig með í för.

Bæjarstjóri mun taka á móti hópnum og setja vikuna formlega í Kópavogi og Hilmar Malmquist, forstöðumaður Nátturufræðistofu Kópavogs, mun segja frá Þinghólum og Kópavogsleirum.

Hjólalestin mun halda af stað kl. 12:45 alla leið á Árbæjarsafn.

Evrópska samgönguvikan er haldin árlega til að vekja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur og virkja það til að nota vistvænni samgöngumáta s.s. almenningssamgöngur, hjóla eða ganga.
 
Í ár er yfirskrift samgönguvikunnar „Á réttri leið!“ en Kópavogsbær er svo sannarlega á réttri leið í þessum efnum því hann hefur lagt mikinn metnað í að leggja hjóla- og göngustíga um bæinn. Þá má nefna nýsamþykkta hjólreiðaáætlun en markmið hennar er að auka veg hjólreiða sem samgöngumáta í sveitarfélaginu þannig að hjólreiðar verði aðgengilegur, skilvirkur og öruggur ferðamáti.