Útsýni frá Vatnsendahlíð að Kórnum í Kópavogi.
Kópavogsbær hefur sett í kynningu skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar íbúðarbyggðar í Vatnsendahlíð og Vatnsvík, auk nýrrar þjónustumiðstöðvar við Kjóavelli. Þetta er fyrsta skrefið í skipulagsferlinu og markmiðið er að veita íbúum og öðrum hagsmunaaðilum tækifæri til að kynna sér áformin og koma með athugasemdir strax í upphafi. Skipulagsvinna felur í sér að gerð er breyting á Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 og deiliskipulagsáætlunum á svæðinu.
Skipulagslýsingin útskýrir hvernig vinnunni verður háttað, hver helstu markmið eru og hvaða gögn og greiningar þurfa að liggja að baki. Í viðauka hennar er einnig samráðsáætlun sem segir til um hvernig samráð verður háttað á meðan á vinnunni stendur.
Áætlað er að fyrstu tillögur að skipulagi verði tilbúnar í byrjun árs 2026 og að skipulagsvinnunni ljúki í lok sama árs. Markmiðið er að tengja nýja byggð vel við núverandi hverfi og náttúru svæðisins, auk þess sem finna þarf nýja staðsetningu fyrir þjónustumiðstöð Kópavogs sem uppfyllir þarfir starfseminnar.
Nánar er fjallað um markmið og forsendur varðandi skipulagsvinnuna í lýsingu verkefnisins sem er aðgengileg á skipulagsgátt, mál nr.960/2025 og 963/2025 og á vef bæjarins.
Kópavogsbær hvetur þau sem vilja hafa áhrif til að senda inn athugasemdir við skipulagslýsinguna í gegnum skipulagsgátt(mál nr.960/2025 og 963/2025). Athugasemdafrestur er til 1. september 2025. Fyrirspurnir má senda á skipulag@kopavogur.is.
