Íbúafundur um bæjarskrifstofur

Skjaldarmerki Kópavogsbær
Skjaldarmerki Kópavogsbær

Haldinn verður íbúafundur um húsnæði stjórnsýslu Kópavogs þriðjudaginn 2. febrúar í Salnum í Kópavogi. Þar verða kynntar tillögur sem starfshópur um húsnæði stjórnsýslunnar lagði til að bæjarstjórn Kópavogs tæki afstöðu til. 

Kostur eitt er að ráðist verði í viðhald á Fannborg 2 strax. Jafnframt verði mögulegar breytingar á skipulagi svæðisins skoðaðar. 

Kostur tvö er að hafnar verði annars vegar viðræður um nýtt húsnæði í Norðurturni við Smáralind og hins vegar viðræður um nýtt húsnæði við Smáratorg. 

Jafnframt verði leitað samninga um sölu á fasteignum í Fannborg og mögulegar breytingar á skipulagi svæðisins skoðaðar.

„Að baki tillögunum sem starfshópurinn lagði til liggur ítarleg greining og vinna sem er áhugavert fyrir íbúa að kynna sér,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

Bæjarstjóri ávarpar fundinn í upphafi en fulltrúar Mannvits og Capacent kynna valkostina. 

Umræður og spurningar.

Bæjarstjórn Kópavogs lagði til á fundi sínum 15. desember að áður en bæjarstjórn tæki afstöðu yrðu tillögurnar rýndar af íbúum og haldinn opinn fundur með íbúum þegar rýnivinnu væri lokið.

Fundurinn fer sem fyrr segir fram í Salnum 2. febrúar og hefst klukkan 20.00.

Skýrsla Mannvits um samanburð húsnæðiskosta stjórnsýslunnar.